spot_img
HomeFréttirMarcus Camby til Portland

Marcus Camby til Portland

Miðherjinn Marcus Camby er að öllum líkindum á leið til Portland Trail Blazers í skiptum fyrir Travis Outlaw, Steve Blake og 3 milljónir dala að auki. Liðin hafa gengið frá samningum að sínu leyti en forsvarsmenn NBA eiga aðeins eftir að samþykkja skiptin.
 
Með þessum skiptum eru Blazers að reyna að stoppa í gatið í miðjunni sem varð til þegar Greg Oden og Joel Przybilla meiddust fyrr í vetur. Camby er enn einn af bestu varnarmönnum og frákösturum deildarinnar þrátt fyrir að vera nær 36 ára þar sem hann er með tólf fráköst og tvö varin skot að meðaltali í leik fyrir Clippers.
 
Þrátt fyrir að ekkert hafi gengið hjá Clippers þetta árið frekar en önnur herma fréttir að Camby sé ekki ánægður með vistaskiptin þar sem hann og fjölskylda hans hafi komið sér vel fyrir í Los Angeles.
 
Þessi skipti frá sjónarhóli Clippers eru ekki mjög rökrétt. Allir þessir leikmenn eru með lausa samninga og Outlaw mun varla leika það sem eftir lifir leiktíðar vegna meiðsla. Þannig má segja að þeir hafi látið einn af sínum bestu mönnum frá sér fyrir Steve Blake, sem eru ekki beint jöfn skipti með fullri virðingu fyrir Blake.
 
Hins vegar eru það milljónirnar þrjár sem renna beint í vasa Don Sterling, eiganda Clippers, sem eru taldar hvatinn að skiptunum. Kastar það enn meiri rýrð á Sterling sem hefur lengi verið úthrópaður sem aurasál sem er nok sama um körfubolta á meðan hann getur grætt.

Heimild: Yahoo! Sports


 Mynd/AP – Marcus Camby er víst ekki sáttur við skiptin
Fréttir
- Auglýsing -