Karfan.is átti stutt spjall við Manuel Rodriguez þjálfara Skallagríms og Darra Atlason þjálfara KR eftir viðureign liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeild kvenna að ári. Skallagrímur fór með sigur af hólmi í kvöld, 79-69 og leiðir einvígið 1-0. Þær þurfa því einn sigurleik til viðbótar til að tryggja sér úrvalsdeildarsætið en næsti leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni á föstudaginn næstkomandi.
Manuel var að vonum ánægður með sigur síns liðs í kvöld en taldi jafnframt mikilvægt fyrir liðið að halda einbeitingu í vörninni í næsta leik. „Ég er ánægður vegna þess að þetta er fyrsti leikurinn og við unnum hann. En við verðum að halda áfram að vinna hörðum höndum því KR er með gott lið. Þær enduðu í öðru sæti í deildinni og þær eru sterkar á heimavelli.“
Aðspurður um 15 tapaða bolta liðsins í fyrri hálfleik sagði hann liðið vera með unga leikmenn innanborðs sem væru að stíga sín fyrstu skref á sviði úrslitakeppninar og að þeir hefðu vaxið í seinni hálfleik.
„Venjuleg mistök, gefa frá okkur boltann.“ sagði Darri Atlason þegar hann var spurður hvað hafði farið úrskeiðis hjá hans liði í kvöld. „Þær eru kannski óvanar því að vera í þessari aðstöðu, nýtt lið, og við framkvæmdum ekki það sem við ætluðum að gera. En ég hef trú á því samt sem áður að bolti hér, bolti þar, kall hér, kall þar og þá getum við alveg stolið þessum leik.“
Hvað ætlar liðið að leggja áherslu á að bæta fyrir næsta leik? „Við ætlum að kíkja á hvað við getum bætt í leikplaninu og svo ætlum við að framkvæma það. Hugarfarslega erum við flottar, börðumst og allt það, enda ekki af öðru að vænta af þessum stelpum. En smá breytingar á plani og betri framkvæmd.“