spot_img
HomeFréttirMánudagsgöngutúr hjá Haukum í Stykkishólmi

Mánudagsgöngutúr hjá Haukum í Stykkishólmi

Það var lítið um flugeldasýningar í Hólminum á þessu mánudagskvöldi, enda Guðmundur Amlín ekki í bænum, en Haukar heimsóttu Snæfell í 32 liða úrslitum Powerade bikarsins. Bæði lið mættu virkilega flöt til leiks og það virtist sem Haukarnir nenntu ekki að skokka í upphituninni, þeir voru það ákveðnir að vera búnir að vinna leikinn. Það versta var að Snæfellingar samþykktu það þegjandi og hljóðalaust nánast frá byrjun. 

 

Leikurinn byrjaði öllum að óvörum með smá hraða, en ekki miklum gæðum. Kannski skiljanlegt miðað við hvað liðin lögðu í upphitunina. Haukarnir þó alltaf skrefinu á undan. Það var ekki vegna þess að þeir voru að spila glimrandi sóknarleik, það var vörnin þeirra sem vann þennan leik og lélég sókn heimamanna. Sem betur fer eru ekki stöðumælaverðir í Hólminum, því það hefðu nokkrar seðlarnir komið í sjóðinn eftir þetta kvöldið. 

 

Hólmarar sýndu klærnar aðeins í vörninni í öðrum leikhluta en náðu ekki að refsa með körfum í bakið á Haukum. Hrikaleg skotnýting í hálfleik var ekki að gera neitt fyrir heimamenn, hefðu þeir verið með helming af opnu skotunum sínum ofan í hefðu þeir verið með jafnan leik í hálfleik.

 

Eftir þrjár mínútur í seinni hálfleik var leikurinn búinn. Það þarf ekkert að fara út í frekari lýsingar. Snæfellingar rúlluðu sínum mönnum vel á meðan fyrstu sjö fengu að spreyta sig hjá Haukunum. Það lifðu fimm mínútur eftir af leiknum þegar Haukanir fóru dýpra á bekkinn og verður það að teljast djarft.

 

Það er ekki mikið hægt að segja eftir svona leik nema að “Guð minn almáttugur” hvernig gat þetta Snæfellslið leyft sér að mæta svona til leiks. 

 

Án þess að taka neitt af Haukunum þá var þessi leikur það slappur að dómarar leiksins reyndu oft á tíðum að koma mönnum í stuð og fá smá uppþot. En nei það hreyfði ekkert við mönnum. Menn voru staðráðnir í því að labba út um dyrnar á Íþróttamiðstöð Stykkishólms í mestu rólegheitum, sem og gerðist. Haukarnir tóku “mont” labbið og Snæfellingar skunduðu heim eins og ekkert hafi í skorist – manna sáttastir við að fá leik aftur á fimmtudaginn. 

 

Leikurinn endaði með stórsigri Hauka og eru þeir því komnir í 16 liða úrslit bikarsins. Snæfellingar úr leik og þurfa að einbeita sér að snúa bökum saman. Það býr miklu meira í þessu liði en þessi afhroð. Keflavík er næst í deildinni hjá þeim og það verða vonandi ekki lömb sem mæta í þann leik, það gæti orðið blóðugt.

Fréttir
- Auglýsing -