spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaMannabreytingar í liði Tindastóls

Mannabreytingar í liði Tindastóls

Ákveðið hefur verið að gera breytingar á leikmannahópi kvennaliðs Tindastóls. Shaniya Jones hefur kvatt liðið og í hennar stað er Randi Brown mætt á Krókinn, þá hefur Laura Chahrour lagt skóna á hilluna eftir að upp tóku sig gömul hnémeiðsli, í hennar stað er komin Melissa Diawakana.

“Randi er reynslumikill leikmaður, sem spilaði til úrslita síðastliðið vor í Finnlandi. Hún hefur áður spilað í efstu deild á Íslandi og þekkir deildina vel. Hún er fjölhæfur leikmaður með getu til að skora úr öllum stöðum. Melissa er leikstjórnandi með góða yfirsýn yfir völlinn og hún mætir með mikla orku inná völlinn, hún mun hjálpa okkur mikið við að setja tóninn í vörninni með því eða vera mjög ákveðin á boltann.

Undirbúningstímabilið gekk kannski ekki eins og við hefðum viljað, það þurfti að gera breytingar og upp komu meiðsli og annað svo við náðum ekki eins mörgum æfingaleikjum og við hefðum viljað. Ég er mjög glaður með leikmannahópinn sem við höfum, stelpurnar eru að leggja mjög hart að sér og við ætlum að leggja okkur öll fram um að vera lið sem spilar skemmtilegan körfubolta sem gaman er að horfa á. Ég vonast til að fá góða mætingu á leiki liðsins og hlakka sérstaklega mikið til að sjá Tindastólsfólk fylla stúkuna hérna heima.” segir Israel Martin þjálfari liðsins.

Dagur Þór formaður tekur undir orð Martins og hlakkar til að sjá Síkið trofullt í hverri viku i vetur. “Það er skemmtilegt körfuboltatímabil framundan, bæði karla- og kvennaliðin eru samansett af hæfileikaríku og vinnusömu ungu heimafólki i bland við metnaðarfulla atvinnumenn. Ég hlakka mikið til að sjá Tindastólsfólk mæta vel í Síkið og skapa saman fullt af ógleymanlegum stundum.”

Fyrsti leikur kvennaliðsins er þann 2. október gegn Aþenu á útivelli og fyrsti leikur karlaliðsins er þann 3. október þegar KR-ingar mæta norður.

Myndir – Davíð Már

Fréttir
- Auglýsing -