Skömmu eftir Lokahóf KKÍ sem fram fer á morgun mun sambandið halda sitt Körfuknattleiksþing og þegar hafa tíu manns gefið kost á sér til stjórnar KKÍ. Ljóst er að hörku kosningar eru framundan og þá eru tillögurnar sem liggja fyrir þinginu krefjandi enda sitt sýnist hverjum í málefnum erlendra leikmanna og flestar þungavigtartillögurnar hverfast um það mál. Við skulum stikla á stóru í tillögunum sem borist hafa til KKÍ en þær má nálgast hér í heild sinni.
Breyting á reglugerð félagaskipti ( erlendir leikmenn)
Körfuknattleiksdeildir Hauka, Fjölnis, Hamars, UMFN, Breiðabliks og UMFG leggja til fyrir þingið eftirfarandi tillögu sem er ítarlegri og má lesa í heild sinni á heimasíðu KKÍ:
Leikmenn liða í meistaraflokkum karla og kvenna liðsins skulu vera með
íslenskt vegabréf, þó er heimilt að tefla fram tveimur leikmönnum með erlent
ríkisfang inná leikvelli hverju sinni. Liðum er heimilt að vera með eins marga
leikmenn með erlent ríkisfang og það kýs innan sinna raða.
Þá segir ennfremur í tillögunni að sé þriðji erlendi leikmaðurinn kominn inn á leikvöllinn beri að dæma á hann tvöfalda tæknivillu.
Njarðvíkingar bæta við tillögu ef ofangreind tillaga nær ekki fram að ganga og leggja til að:
Heimila skal tveimur leikmönnum með ríkisfang utan Evrópu að leika
með hverju félagsliði í hverjum leik, að undangengnu samþykki KKÍ. Félagi er þó
heimilt að vera samningsbundið fleiri en tveimur leikmönnum á sama tíma.
Þetta þýðir að lið geti verið með tvo Bandaríkjamenn, það fyrirkomulag er þekkt og hefur verið við lýði áður.
Enn af félagsskiptunum því körfuknattleiksdeildir Hauka og Stjörnunnar leggja til að eftir 6. febrúar séu öll félagsskipti óheimil á hverju tímabili. Hingað til hafa leikmenn með ríkisfang utan Evrópu ekki fallið undir þessa reglu, þá einungis og aðallega Bandaríkjamenn. Nái þessi tillaga fram að ganga fá félög ekki að skipta út Bandaríkjamönnum sínum ef þeir meiðast t.d. í úrslitakeppni.
Hér kemur svo athyglisverð nálgun á félagsskipti erlendra leikmanna:
Félög sem óska eftir heimild fyrir leikmann með ríkisfang utan Evrópu eða með
ríkisfang lands utan FIBA Europe skulu senda umsókn þar að lútandi til KKÍ ásamt
leikheimild (e. letter of clearance) frá því landi sem hann lék í síðast, greiðslu til FIBA
og KKÍ, svo og önnur þau gögn sem kann að vera krafist þar á meðal staðfestingu á að
leikmaður sé tryggður hér á landi. Félög skulu greiða með hverri leikheimild 50.000
krónur sem rennur óskert til yngri landsliða KKÍ.
Hér er boðað að það kosti hvert félag 50.000 krónur að fá til sín erlendan leikmann. Það yrði greiðsla sem óskipt myndi renna til yngri landsliða KKÍ. Þá er ótalinn annar kostnaður í formi gjalda sem greiða þarf til FIBA vegna félagsskipta svo ætla má að hvert ígildi erlends leikmanns muni kosta félag um 100.000 krónur þegar öllu er á botninn hvolft.
Þá kemur Stjórn KKÍ með bombu inn á þingið og leggur til að leikin verði þreföld umferð í úrvalsdeild karla. Leikmenn sem flestir hafa viljað spilað fleiri leiki á tímabilinu ættu að fagna en vísast munu einhverjir kvarta yfir því að þurfa að leika gegn einhverjum í tvígang á útivelli, ef tillagan verður samþykkt. Dregið verður í töfluröð svo það er bara lafði lukka sem ráða mun för í því ferðalagi, þýðir ekkert að biðja um fleiri leiki og skæla ef þú lendir tvisvar á erfiðum útivelli.
Þá er Stjórn KKÍ með tillögu sem felur í sér breytingu á úrvalsdeild kvenna, A og B riðill myndu falla niður og leikin yrði fjórföld umferð með 8 liðum í deildinni. Aðeins fjögur efstu liðin kæmust þá í úrslitakeppnina, í dag komast sex lið í úrslitakeppnina, fyrsta umferðin er reyndar forkeppni að úrslitakeppni sem við á Karfan.is höfum kosið að líta á sem hluta úrslitakeppninnar. En með þessu fellur s.s. út riðlaskiptingin eftir tvöfalda umferð í deildinni.
Körfuknattleiksdeild Fjölnis lætur hér krók reyndar mæta bragði og vill sjá 10 liða úrvalsdeild í kvennaflokki.
Körfuknattleiksdeild Hamars vill leggja til nýtt fyrirkomulag á fyrirtækjabikarinn svokallaða og virðist markmið tillögunnar vera að fjölga enn leikjum. Deildarfyrirkomulag yrði á keppninni sjálfri sem hæfist fyrir Íslandsmót og lyki í lok nóvember.
Þá eru komnar inn yfirgripsmiklar og athyglisverðar breytingartillögur á aga- og úrskurðarnefnd KKÍ. Þar má m.a. finna viðbót að ef sá leikmaður eða þjálfari sem sætir kæru sem reynist tilhæfulaus gæti komið til ómaksþóknun:
Heimilt er að dæma kærðum ómaksþóknun úr hendi kæranda enda sé kæran tilhæfulaus.
Heimilt er að dæma kærðum ómaksþóknun úr hendi kæranda enda sé kæran tilhæfulaus.
Vissara að hrópa ekki úlfur, úlfur.
Þetta og margt margt fleira sem tekið verður fyrir á Körfuknattleiksþingi KKÍ ætti að vekja kröftugar og miklar umræður og ljóst að margir körfuknattleiksáhugamenn bíða spenntir eftir því að sjá hvaða stefnur og straumar verða við lýði í Skagafirði.
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is