Hannes S. Jónsson formaður KKÍ staðfesti við Karfan.is í dag að samþykkt hefði verið á formannafundi aðildarfélaga KKÍ á dögunum að leggja málefni erlendra leikmanna í umræðu stjórnar KKÍ. Á síðasta sambandsþingi KKÍ var samþykkt með tæplega 70% atkvæða að leika eftir hinu svokallaða 4+1 fyrirkomulagi. Á formannafundinum á dögunum var ákveðið að boða ekki til aukaþings heldur leggja málefni erlendra leikmanna fyrir stjórn KKÍ sem hefur reglubreytingarvald í þessum efnum.
Mikill vilji var á meðal fundargesta að sögn Hannesar að taka málið fyrir en ekki vilji til þess að boða til aukaþings. Eins og flestum má ljóst vera gæti orðið umtalsvert umrót á leikmannamarkaði ef breyting verður á 4+1 fyrirkomulaginu. Stjórn KKÍ hefur rætt þetta óformlega en engin ákvöðrun verð tekin enn um „útlendingaregluna“ svokölluðu en við spjölluðum við Hannes í dag.
„Já enn og aftur er það málefni erlendra leikmann sem „brennir heitast“ hjá mörgum í hreyfingunni. Ég ítreka það sem ég sagði á þinginu okkar í fyrra, við þurfum saman sem hreyfing að þroskast í þá átt að þessi málaflokkur sé ekki alltaf í brennidepli þegar körfuknattleiksþing eða formannafundur kemur saman og ég ítrekaði þetta nokkrum sinnum á fundinum á síðasta föstudag. Það kom tillaga á formannafundinum um að fjölga þurfi erlendum leikmönnum í liðunum og það var rætt töluvert. Stjórnin lagði því til á fundinum að boðað yrði til aukaþings en 2/3 hluta formannafundar getur boðað aukaþing um ákveðin málefni. Fundurinn felldi þessa tillögu ( 6 já og 12 nei ) og því var borin upp um önnur tillaga þar sem stjórninni var falið að skoða reglugerð um erlenda leikmenn og var það samþykkt (12 já og 6 nei ), eitt félag fer með eitt atkvæði. Stjórnin hefur reglugerðarvald en hefur að sjálfsögðu ekki viljað gera breytingar því hefðin hefur verið í þessum málaflokki að leyfa hreyfingunni að ráða þessu og taka afstöðu á þingum. Hingað til hefur hreyfingin ekki viljað að stjórnin sé með þetta mál. Oft hefur þetta verið tæpt á þingum en á síðasta þingi þá var samþykkt með um 70% atkvæða að hafa áfram 4+1 regluna sem hafði verið í tvö ár“
Hversu langan tíma ætlar sjórnin að taka í þetta mál?
„Stjórn og starfsmenn ræddu þetta strax að loknum fundi og við ákváðum að gefa okkur tíma í þetta stóra mál. Það er auðvitað pressa frá mörgum að þetta verði ákveðið sem fyrst, við erum vel meðvituð um það í stjórn sambandsins að það er engin draumastaða fyrir félögin eða leikmenn að núna um miðjan maí sé þessi staða uppi. En þetta er það sem formanannafundur ákvað og því þarf að fara í þetta núna en við munum gefa okkur þann tíma sem þarf óháð fjölda símtala og skilaboða frá þeim sem eru óþolinmóðir. Við viljum heyra betur í öllum formönnum og það hef ég verið að gera undanfarna daga og sjá þannig hver raunverulegur vilji félaganna okkar er. Við í stjórninni höfum svo átt mörg símtöl okkar á milli, við ætlum að hittast á morgun fimmtudag og fara saman yfir þetta en ákvörðun liggur vonandi fyrir í lok næstu viku.“
Hvað finnst þér sem formanni KKÍ um þetta mál og telur þú að að þessi umræða sé neikvæð?
„Því miður sveiflast þessi umræða of mikið hvað hentar félögunum hverju sinni. Þessi umræða hefur pínu neikvæðan stimpil það er að við þurfum að vera að ræða þetta aftur og aftur og aftur. Allt það jákvæða sem er gerast í körfunni má ekki gleymast þrátt fyrri þessa umræðu því körfuboltinn hefur sjaldan eða aldrei fengið eins mikla athygli og eru vinsældir körfuboltans í hæstu hæðum það er engin spurning um það, við sjáum það til dæmis á fjölgun iðkenda, umfjöllun fjölmiðla og dreifingu Íslandsmeistaratitla í yngri flokkunum svo eitthvað sé nefnt. Ég bara ítreka það sem ég sagði í byrjun viðtalsins, við þurfum saman sem hreyfing að þroskast í þá átt að þessi málaflokkur sé ekki alltaf í brennidepli þegar körfuknattleiksþing eða formannafundur kemur saman.
Andstæðir pólar verða að sætta sig við það að þeir fá ekki það sem þeir vilja og því verður að nást einhverskonar sátt í þessu máli. Það má líkja þessu máli við stóra Reykjavíkurflugvallarmálið nema að ég held að málefni erlendra leikmanna í okkar ástkæru íþrótt sé heitara og viðkvæmara. Það verður alveg sama hvaða ákvörðun stjórnin mun taka núna , einhverjir verða ósáttir.“