Stjörnuleikur KKÍ fór fram í Ásgarði í Garðabæ í dag. Venju samkvæmt var boðið upp á þriggja stiga keppni og þar fór Keflvíkingurinn Magnús Þór Gunnarsson með sigur úr býtum. Karfan.is hafði tippað á að Ísfirðingurinn Kristján Pétur Andrésson myndi vinna keppnina en reynsluboltinn Magnús sýndi hvers hann er megnugur.
Það voru Magnús og Eric Palm, leikmaður ÍR, sem skutu til úrslita, Palm fékk þar 8 stig en Magnús nældi sér í 13. Eftir forkeppnina voru það Magnús Þór og Eric sem komust áfram ásamt Kristjáni Pétri Andréssyni, Brynjari Þór Björnssyni og Benjamin Curtis Smith.
Það vantaði ekki byssurnar í þessa keppni en menn verða að galdra fram eitthvað svakalegt ef þeir ætla að dansa með MG10 í þessu!
Fjörið vantaði ekki í Ásgarðinn í dag, vel var mætt og góð stemmning í húsinu. Öll dagskráin var svo í beinni á Sporttv.is og eflaust skammt að bíða þess að Viddi og félagar mæti með tilþrifamyndband frá deginum. Nú til að hafa þetta enn safaríkara voru kapparnir frá Leikbrot.is einnig að sýslast þarna svo það ætti brátt að vera af nægu að taka á alnetinu.