spot_img
HomeFréttirMagnús Bjarki hetja Stjörnumanna

Magnús Bjarki hetja Stjörnumanna

Þá er haustboðinn ljúfi, körfuboltinn, loksins farinn að skoppa. Fyrsti stórleikur vertíðarinnar fór fram í Ásgarði í kvöld þar sem Vesturbæingar voru í heimsókn. Stjörnumönnum var spáð 3. sætinu í vetur og KR-ingum því fyrsta, engum að óvörum. Að því sögðu mátti e.t.v. búast við jöfnum og spennandi leik í Garðabænum.

 

Kunnugleg andlit byrjuðu inn á hjá liðunum að mestu. Marvin, Shouse og Tómas Þórður byrjuðu hjá heimamönnum ásamt Tómasi Tomm og erlendum leikmanni sem kallaður er Zo. Darri, Brilli, Pavel og Craion byrjuðu hjá KR og nýjasti liðsmaður þeirra og landsliðsmaðurinn Ægir Þór að auki.

Liðin buðu einkum upp á varnarleik til að byrja með og virtust ekki hafa áhuga á að safna mörgum stigum. Heimamenn voru þó lítið eitt beittari og komust í 11-2 og þá voru aðeins 4 mínútur eftir af fyrsta leikhluta! Að þeim liðnum voru gestarnir búnir að svara lítið eitt fyrir sig og staðan 17-14. 

Annar leikhluti var kannski svolítið skemmtilegri áhorfs og bæði lið fundu eilítið betri takt sóknarlega. Snorri Hrafnkelsson kom inn á hjá KR og hleypti ágætu lífi í gestina sem áttu fyrstu 6 stig leikhlutans. Heimamenn svöruðu að bragði og bæði lið greinilega staðráðin í því að hleypa andstæðingnum ekki á neitt stökk. Liðin skiptust á körfum og munurinn aldrei nema 2-3 stig. Staðan 38-39 í hálfleik. Meistari Shouse og Tommi Tomm höfðu sig mest í frammi Stjörnumanna og Pavel og Brilli hjá gestunum – Brilli með brillískan flautuþrist í lokin!

Þriðji leikhluti fór hægt af stað líkt og sá fyrsti. Baráttan jókst jafnt og þétt í jöfnu hlutfalli við spennustigið. Hvert stig kostaði mjög margar kalóríur en það er eitthvað sem meistari Shouse virðist eiga nóg af, þvílík barátta í manninum. Hann verður án vafa verulega erfitt gamalmenni! Landsliðsmenn gestanna eru heldur engir aumingjar og allt í járnum, 58-57 fyrir lokaleikhlutann.

KR-ingar byrjuðu betur og vafalaust hvarflaði að mörgum að breidd og reynsla þeirra gæti skilað öruggum sigri að lokum. Sú varð ekki raunin. Marvin kom heimamönnum aftur yfir 65-64 þegar 6 mínútur lifðu leiks eftir að hafa skorið teiginn glæsilega eins og nýbrýndur búrhnífur. Zo ákvað einnig að hrista af sér fullmikla hlédrægni  framan af og spilaði verulega vel þegar mest á reyndi. Smellti hann m.a. tveimur rándýrum þristum en Pavel og Darri svöruðu hinum megin. Þegar 54 sekúndur voru eftir var staðan 77-76 og heimamenn með boltann. Sóknin var alls ekki til eftirbreytni og það kom í hlut Pavels að lyfta sér í þriggja stiga skot þegar 9 sekúndur lifðu leiks án árangurs. Þá var komið að hetju leiksins en Magnús Bjarki hirti varnarfrákastið og var strax sendur á línuna. Hann setti fyrra skotið af öryggi, 78-76, klikkaði á því síðara en hirti bara sóknarfrákastið sjálfur! Algerlega ómögulegt að gera betur í þessari stöðu – og þó því hann kom boltanum svo á Shouse sem tryggði sigurinn með tveimur vítum þegar 6 sekúndur voru eftir. Lokatölur því 80-76 og verulega flottur og væntanlega að flestra mati óvæntur sigur Stjörnumanna.

Haustbragurinn alræmdi var ekki áberandi í kvöld og leikurinn vel leikinn og skemmtilegur. Það er einstaklega ánægjulegt að fá beina sjónvarpsútsendingu í fyrstu umferð og undirritaður fullyrðir að það hafi lyft þessum leik upp. Silfurskeiðin lét t.a.m. sjá sig og söng fagurlega á löngum köflum og myndaði ágæta stemmningu í húsinu. Hversu oft hefur það gerst í fyrstu umferð keppninnar?

Pavel var bestur gestanna eins og oft áður og gældi við þrennuna. Craion var þó stigahæstur með 16 stig en kappinn getur betur en það. Hjá heimamönnum var Shouse frábær og virðist vera í fantaformi. Hann var með 23 stig og 7 stoðsendingar og endalausar kalóríur. Zo var líka með 23 stig og óx ásmegin eftir því sem á leið og satt er það sem mælt er að sígandi lukka er best. Magnús Bjarki gerði þó nákvæmlega það sem þurfti til að landa sigrinum með tveimur síðustu fráköstum leiksins og vítaskoti.

 

Magnús Bjarki, hinn ungi og efnilegi Stjörnumaður og hetja kvöldsins, var tekinn tali eftir leik:

Þú ætlaðir ekkert að hitta úr seinna skotinu?
Neinei ég var að reyna það! 

…og þetta heppnaðist mjög vel!
Jájá!

Var ekki svolítið stress í þér á línunni?
Jú ég viðurkenni það að það fór svolítið um mann í seinna vítinu en maður var aðeins slakari í fyrra.

Þetta var verulega góður leikur hjá ykkur Stjörnumönnum.
Já, allt sem við lögðum upp með heppnaðist vel. Við náum að halda þeim undir 80 stigum og allt byrjunarliðið þeirra eru landsliðsmenn. Það er alveg frábært. 

Myndir þú taka undir það að það hafi gefið smá extra að fá sjónvarpsleik?
Já algerlega, skemmtilegt að fá fyrsta leik heima á föstudegi í sjónvarpinu og svo þáttur um umferðina með Stjörnumanninum snjalla Kjartani Atla..þetta er bara alveg frábært. 

Það bar ekki mikið á haustbragnum í þessum leik, eru ekki bæði lið bara nokkuð vel tilbúin fyrir átökin?
Jú ég myndi segja það, það var kannski smá svona í byrjun, fyrri hálfleikurinn kannski aðeins ryðgaður einkum sóknarlega. En svo duttu liðin betur í gang í seinni hálfleik.

 

Finnur Freyr þjálfari KR hafði þetta að segja eftir leik:
 

Finnur var ekki alveg sammála undirrituðum varðandi haustbraginn;
Mér fannst við nú gera mikið af mistökum, mikið af ótímabærum skotum og fleiri hlutir sem við kannski eigum að gera betur og gerðum ekki nógu vel í dag. En leikurinn var spennandi og jafn og skemmtilegur allan tímann. Munurinn kannski helst sá að Stjarnan setti stóru skotin meðan að við klikkuðum á okkar og áttu sigurinn skilinn þar af leiðandi.

Það er gaman að fá sjónvarpsleik í fyrstu umferð og það kannski hefur hjálpað liðunum að mæta vel gíruð í þennan leik?
Jájá en aðallega skemmtilegt fyrir körfuboltafjölskylduna að fá sjónvarpsleik. Við sem erum á gólfinu höfum þetta alltaf eins. Þetta er leikur tveggja liða, 5 á móti 5 og sjónvarp eða ekki sjónvarp – það er bara hluti af þessu.

 

Nú hefur verið talað svolítið um það að KR beri höfuð og herðar yfir önnur lið og hinn almenni körfuboltaáhugamaður hugsanlega ánægður með þessi úrslit. Hvað viltu segja við því? 
Það hefur vissulega verið mikið í umræðunni og menn búnir að færa okkur titilinn fyrirfram. En við erum ekki búnir að vinna eitt eða neitt. Það er nýtt tímabil og okkar árangur undanfarin ár skiptir engu máli – við vitum það að við erum að fara í hörku tímabil og við erum ekki að fara að gera neitt með vinstri. Þetta eru hörku góð lið hérna í deildinni og langur vetur framundan þar sem við þurfum að leggja okkur fram og vera góðir til að eiga möguleika á titli. 

Tölfræði leiks

 

Texti: Kári Viðarsson

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Mynd:  Tómas Tómasson í baráttunni við Björn Kristjánsson. (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -