Já athlægi, viðstaddir gátu vart annað en boðið upp á myndarlegan Skarphéðinshlátur í DHL-Höllinni í kvöld þegar Snæfell tortímdi KR 63-104. Hólmarar hlógu að gestgjöfum sínum og brutu sjálfstraust heimamanna í mél um miðjan annan leikhluta. Útreið nægir vart til að lýsa þeim ósköpum sem áttu sér stað í vesturbænum í kvöld. Jón Ólafur Jónsson fór fyrir heitum gestunum með 27 stig en framlagið var myndarlegt úr Hólminum í kvöld, sex leikmenn með 11 stig eða meira.
Hólmarar mættu ákveðnir til leiks í DHL-Höllinni og léku fína vörn. Jay Threatt var þó helst til að klappa boltanum of mikið í liði Snæfells en það kom ekki að sök því Snæfell leiddi 13-24 að loknum fyrsta leikhluta. Heimamenn í KR voru bragðdaufir í sóknum sínum gegn þéttri vörn Snæfells og skortur á vilja og ákveðni nokkuð áberandi og það færðu Snæfellingar sér í nyt.
Í öðrum leikhluta skellti Danero Thomas niður tveimur KR þristum og minnkaði muninn í 27-38. Þetta og nokkrar rispur hjá Martin Hermannssyni var allt og sumt sem KR bauð upp á í kvöld. Annað var algerlega í eigu Snæfellinga. Eftir Danero-rispuna fór Snæfell aftur í gang, KR breytti yfir í svæðisvörn og það hægði stutta stund á leiknum en Snæfell áttaði sig á þessu fljótt og leiddu 27-53 í hálfleik þar sem Hafþór Ingi Gunnarsson átti lokaorðið fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu.
Danero Thomas var með 10 stig hjá KR í hálfleik og Martin Hermannsson 7. Hjá Snæfell var Jón Ólafur með 16 stig og Jay Threatt 10.
Nýting liðanna í hálfleik
KR: Tveggja 31,5% – þriggja 27,2% – víti 75%
Snæfell: Tveggja 60% – þriggja 50% – víti 100%
Það var nokkuð ljóst á upphafsmínútum síðari hálfleiks að KR myndi ekkert fá út úr leik kvöldsins. Sveinn Arnar Davíðsson splæsti í tvo þrista í röð og kom Snæfell í 37-69. Gestirnir voru óeigingjarnir og margir komust í flottan takt við leikinn. Staðan var 45-74 að loknum þriðja og heimamen hreinlega farnir að bíða spenntir eftir lokaflauti leiksins.
Í fjórða leikhluta kom það svo sem ekki á óvart að KR-ingar færu að skeyta skapi sínu á innanstokksmunum í DHL Höllinni enda frammistaðan pínleg og þrjú tæknivíti fæddust og tvö þeirra sáu til þess að Jón Orri Kristjánsson þyrfti að fara í steypibað. Lokatölur reyndust svo 63-104 Snæfell í vil.
KR-ingar geta þó huggað sig við þá staðreynd að botninum er náð. Töpin verða fleiri, það á við um öll lið í þessari deild en þau verða ekki jafn stór hjá KR og í kvöld. Jafn vel mannað lið og röndóttir láta það ekki gerast tvisvar sömu vertíðina. Landsliðsmennirnir þrír og erlendu leikmennirnir tveir vita upp á sig skömmina, lykilmenn í röndóttu sem þurfa heldur betur að leggjast í naflaskoðun.
Snæfellingar voru magnaðir í kvöld, veglegt framlag úr öllum áttum, óeigingirni og svo eitthvað sem hefur verið ábótavant hjá þeim, þéttur og sterkur varnarleikur. Ekki heiglum hent að halda KR í 63 stigum í DHL Höllinni.