Fram kom í Fréttablaðinu í dag að leikur Njarðvíkur og Keflavíkur í Domino's deild karla í kvöld sé sá sextugasti milli þessara liða sem Magnús Gunnarsson spilar. Karfan.is tók tal af honum þar sem hann var að undirbúa sig fyrir leik.
"Þetta eru oftast skemmtilegustu leikirnir. Það er alltaf rígur milli þessara liða þó að hann sé aðeins minni núna en hefur verið. Það er alltaf geggjað að spila á móti Njarðvík."
Þótt það sé gaman að mæta Njarðvík veit Magnús að þetta er krefjandi verkefni og að honum og liðsfélögum hans verður ekki réttur sigurinn á silfurfati. "Þessi leikur leggst vel í mig. Það er alltaf erfitt að fara í Ljónagryfjuna og spila, en að sama skapi alltaf geggjuð upplifun. Þetta er eitt af þremur skemmtilegustu húsunum til að spila í."
Liðin eru frekar jöfn þetta árið og því við búist að þetta verði skemmtilegur leikur en Magnús segir það ekki skipta máli. "Breytir engu hverjir eru í liðunum, þessir leikir verða alltaf 50/50 og við þurfum að mæta tilbúnir ef við ætlum að vinna."
En verða einhver læti í kvöld? "Það held ég ekki, en það verður hart barist! Og það er bara skemmtilegt."
"Við förum auðvitað í þennan leik til að vinna hann eins og alla aðra. Pressan er jú meiri frá stuðningsmönnum fyrir þennan leik þar sem það vilja allir eiga montréttinn."
Hvað ætlar samt Magnús Gunnarsson að gera til að undirbúa sig fyrir leikinn? "Bara skreppa á Subway í hádeginu. Svo vaska ég upp og ryksuga með pepp músík í gangi. Þá er maður tilbúinn í þetta!"
Njarðvík – Keflavík hefst í Ljónagryfjunni kl. 19:15 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.