spot_img
HomeFréttir"Lykillinn að sigri að Tómas Hilmars, Arnþór, Sæmi og Magnús Bjarki standi...

“Lykillinn að sigri að Tómas Hilmars, Arnþór, Sæmi og Magnús Bjarki standi sig bæði sóknarlega og varnarlega”

 

Næstkomandi fimmtudag hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Degi seinna, á föstudaginn, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, að taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs Stjörnunnar, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, en lið hennar mætir Njarðvík í fyrsta leik í Ásgarði næstkomandi föstudag kl 19:15.

 

Hversu lengi hefur þú og af hverju fórst þú að standa við bak lið Stjörnunnar í körfubolta?

Það var haustið 2009 sem ég hafði samband við þáverandi formann körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og spurði hvort deildin væri til í að taka við 14 leikmönnum og þjálfara sem vildu spila undir merkjum Stjörnunnar sem meistaraflokkur kvenna. Gunni formaður tók strax vel í hugmyndina og skömmu síðar spilaði ég minn fyrsta leik í Stjörnunni sem var einnig fyrsti leikur meistaraflokks kvenna í Stjörnunni. Árið eftir flutti ég til Grindavíkur og hætti að spila körfubolta en þessi vetur með Stjörnunni var skemmtilegur og þetta kvennalið hefur alltaf verið í mínum huga liðið mitt enda spilaði ég lengi með þeim stelpum sem héldu svo áfram með liðið eftir að ég hætti og hluti af þeim er enn að spila í dag.  

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Stjörnunnar?

Ég verð að viðurkenna að ég heillaðist að leikgleði liðsins og krafti stuðningsmanna er liðið varð bikarmeistari árið 2009 þótt ég hafi nú ekki beint verið orðin stjörnumanneskja á þeim tíma. Sigurinn okkar í fyrsta leik mfl. kvk á Þór 18. október 2009 var einnig skemmtilegur þótt það væri ekki nema bara fyrir það að þetta var fyrsti leikur liðsins og fyrsti sigurinn.

 

 Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Gústi (Ágúst Angantýsson) er minn uppáhaldsleikmaður í liðinu í dag, kemur með mikla orku í leikinn og er tilbúin að gera það sem liðið þarf á að halda hverju sinni, hvort sem það er að spila góða vörn, skora stig eða öskra leikmennina áfram.

 

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og af hverju?

Justin Shouse, frábær körfuboltamaður, endalaus orka inn á vellinum, drífur liðið áfram og fórnar sér fyrir liðið.  Skorar þegar þarf á að halda en á sama tíma ekki eigingjarn leikmaður enda á hann stoðsendingametið í deildinni.  Svo má ekki gleyma þeim ófáu ruðningum sem hann hefur tekið í gegnum tíðina.

 

Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Njarðvík?

Þetta verður erfitt. Njarðvík er með þrusugott lið og reynda þjálfara og það að þeir hafi endað í 7. sæti í deildinni segir meira um hvað það eru mörg góð og jöfn lið frekar en að Njarðvíkingar séu slakir. Auðvita mun það hafa áhrif að Logi er ekki í liðinu en það mun aðeins þjappa Njarðvíkingum betur saman.

 

 Hverjir eru helstu styrkleikar Njarðvíkur?

Helstu styrkleikar liðsins er annars vegar þjálfararnir og hins vegar Haukur Helgi Pálsson, þessi blanda getur komið þeim langt. Síðan eru þarna margir góðir leikmenn og ef Maciej og Oddur hitta á toppleik ásamt erlenda leikmanni þeirra þá getur allt gerst.

 

 Hverjir eru helstu styrkleikar Stjörnunnar?

Styrkleikar liðsins er varnarleikurinn, reynslan og hungrið í Íslandsmeistaratitil. Þessir strákar hafa margir spilað lengi saman og tvisvar hefur bikarinn komið í Garðabæ og mikil löngun í Íslandsmeistaratitil. Liðið er líka mjög óeigingjarnt og þeir reyna að spila upp á þann leikmann sem er heitur hverju sinni sem er mikil styrkur.

 

Hvaða leikmaður Stjörnunnar er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Ég held að lykillinn að sigri í þessari rimmu bæði hjá Stjörnunni og Njarðvík er hvort liðið fær fleiri leikmenn til að virkilega stíga upp bæði í vörn og sókn. Hjá Stjörnunni er ég viss um að Justin, Alonzo, Marvin, Gústi og Tómas Heiðar skili sínu þannig að í mínum huga er lykillinn að sigri að Tómas Hilmars, Arnþór, Sæmi og Magnús Bjarki standi sig bæði sóknarlega og varnarlega. Þetta eru margir leikir framundan og því verða þessir leikmenn að sýna hvað í þeim býr.  

 

Hvernig á serían eftir að fara?

Ég vona að þetta fari 3-1 þótt það kæmi mér alls ekki á óvart að þetta færi 3-2 fyrir Stjörnunni en þar sem ég sit oft á ritaraborðinu í þessum leikjum þá er það ansi erfitt fyrir taugarnar að fara í oddaleik. Ég væri því til í að sleppa við það.

 

 Ef blátt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Eins og allir vita sem þekkja eitthvað til mín þá er ég fædd og uppalin í Grindavík, spilaði þar til tvítugs, sat í bæjarstjórn þar 2010-2015 og hef unnið mikið fyrir körfuknattleiksdeild Grindavíkur. Þannig að ég mun alltaf vera Grindvíkingur ásamt því að vera Stjörnumaður. Úrslitarimman milli Grindavíkur og Stjörnunnar um titilinn árið 2013 er því mjög eftirminnileg enda mættust þar mín lið. Ég var ánægð að sjá Grindvíkinga komast í 8 liða úrslit núna og er viss um að þeir muni sýna KR að þótt þeir hafi lent í 8. sæti þá eru þeir sýnd veiði en ekki gefin. Ef bæði liðin mín vinna sínar rimmur þá mætast þau í undanúrslitum og þá verður skrýtið að sitja á ritaraborðinu í Ásgarði en ekki Grindavík.  

Fréttir
- Auglýsing -