spot_img
HomeFréttir"Lykilatriði að Vance Michael Hall leiki eins og hann á að sér"

“Lykilatriði að Vance Michael Hall leiki eins og hann á að sér”

 

Næstkomandi fimmtudag hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Degi seinna, á föstudaginn, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, að taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Við hefjum leik á stuðningsmanni liðs Þórs úr Þorlákshöfn, Sigmari Þór Óttarssyni, en lið hans mætir Haukum í fyrsta leik í Hafnarfirði næstkomandi föstudag kl 19:15.

 

 

Hversu lengi hefur þú og afhverju fórst þú að standa við bak lið Þórs í körfubolta?

Hér er því til að svara að ég er brottfluttur Þorlákshafnarbúi, og hafandi búið á staðnum að þá bara hættir maður því ekki svo glatt að hafa taugar til byggðarlagsins. Ég lék á mínum tíma með fótboltaliði Þórs þá er byrjað var að taka þátt í Íslandsmóti rétt fyrir miðjan 8unda áratug síðustu aldar. En svo sleit ég nánast tengslin og fylgdist lítið með nema svona úr fjarska hvað var að gerast í íþróttalífi Þorlákshafnarbúa. Ég vissi að það var stofnuð körfuboltadeild hjá Þór upp úr 1990 og á svipuðum tíma voru komin til íþróttamannvirki á staðnum svo hægt væri að stunda inniíþróttir. Það er upp úr 2000 sem ég fer að taka eftir því á íþróttasíðum dagblaðanna að Þórsarar eru komnir á blað og farnir að sýna lit þarna niðri í næstefstu deild. En aldrei kíkti ég samt á körfuboltaleik með þeim þá en mitt lið í körfunni var KR og búið að vera það ansi lengi. Svo hélt nú alveg fram til vorsins 2010 en þá urðu straumhvörf hjá mér þegar Þórsarar ákváðu að taka þetta af alvöru og ráða til sín alvöru þjálfara sem hafði náð árangri með þau lið sem hann hafði þjálfað. Ég er að tala um Benedikt Guðmundsson. Síðan þá hef ég ekki litið til baka. Reyndar var komið langt fram á haustið þegar ég sá leik með Þór en það var í Poweradebikarnum gegn Haukum. Þór er þarna að gera það virkilega gott í 1. deildinni en Haukar svona miðlungs úrvalsdeildarlið. Í leiknum sem fram fór á Ásvöllum voru Þórsarar mun betri en misvitrir dómarar höfðu sigurinn af þeim og Haukarnir fóru áfram í bikarnum í það sinnið, ég er að tala um Poweradebikarinn 2011. Ég hins vegar varð ástfanginn af öllu í kringum Þórsliðið, hvernig liðið lék, hópurinn innihélt unga og upprennandi stráka og svo var fjöldi fólks sem kom úr Þorlákshöfn til að styðja liðið. Ég fann einhverja vakningu þarna, og líklega er Græni Drekinn kominn þarna vel á flot. Já, það eru um 5 ár síðan ég hætti að halda með KR í körfuboltanum og ást mín og stuðningur færðist yfir á körfuboltalið Þórs frá Þorlákshöfn. Og núna er mitt lið að ljúka sínu 5ta tímabili í úrvalsdeildinni og komið í 8 liða úrslitakeppnina í 5ta sinn einnig. Liðið hefur verið á rólinu 2.-7. sæti í deildarkeppninni og það er það sem þarf til. En ég vil hér að lokum geta þess að ég bý í Hafnarfirði og hef gert það í tæp 9 ár en dettur ekki hug að styðja körfuboltalið Hauka þótt það sé alls góðs maklegt.

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Þórs?

Þennan fyrsta vetur Benedikts í þjálfarasætinu hjá Þór að þá sá ég einungis 3 leiki með liðinu en fylgdist mjög vel með hvað var að gerast. En fyrsta góða minningin mín af því að vera stuðningsmaður Þórsara í körfuboltanum var sú þegar það var ljóst eftir leik gegn Skallagrími á heimavelli að liðið var bæði búið að vinna 1. deildina með yfirburðum og þar með komið í úrvalsdeildina, reyndar í 3ja sinn. En fyrri skiptin höfðu mikið til farið framhjá mér vegna búsetu erlendis en nú var ég kominn heim og klár í slaginn!

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Minn uppáhaldsleikmaður í Þórsliðinu er Grétar Ingi Erlendsson, hann er mister Þór ef svo má segja. Hann er búinn að alast upp í félaginu, verið þar að spila alla tíð, þó með einni undantekningu (fór í Skallagrím eitt tímabil og stóð sig ágætlega þar), og hann er það góður leikmaður að hann gengi inn í hvaða íslenskt úrvalsdeildarlið sem vera kann. Hann hefur fengið slatta af meiðslum til að eiga í en hefur alltaf snúið til baka jafnsterkur ef ekki betri. Ég vonast eftir honum alveg nautsterkum í úrslitakeppninni og að hann og Ragnar Natvél í sameiningu rústi Haukunum!

 

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og af hverju?

Hér geri ég ráð fyrir að spurt sé um leikmann og höfðað þá einnig allt eins til erlendu leikmannanna sem hafa verið í liði Þórs. Ég get verið snöggur að svara þessari spurningu! „All time-leikmaður minn heitir Junior Hairstone sem spilaði með Þórsurum seinni hluta tímabilsins 2011-2012, en Þórsarar sem nýliðar fóru þá alla leið í úrslitarimmuna en lutu í parkett fyrir Grindvíkingum sælla minninga. Hann er mér mjög í fersku minni og frammistaða hans í deildarkeppninni gegn Stjörnunni á heimavelli Garðbæinga bara ein af þeim betri sem ég séð í körfuboltaleik hér á landi. Hann var í einhverjum „ham“ í leiknum sem erfitt er að útskýra en hann tvímælalaust vann þann leik fyrir okkur Þórsara. Enda fengu Stjörnumenn hann til liðs við sig næsta tímabil á eftir, reyndar eftir að hafa prófað einhverja útlendinga áður, og hann gerði fína hluti með þeim. Ég fór og kíkti einmitt á nokkra leiki með honum aukreitis í Stjörnubúningnum á því tímabili!

 

Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Haukum?

Ég met þetta einvígi 50/50, jafnvel þótt Haukarnir hafi verið á ægilegu skriði að undanförnu og hafa unnið 7-8 leiki í röð. Þeir fóru illa með okkur í deildarleikjunum en við unnum þá hins vegar í tvígang í öðrum keppnum, annars vegar í Lengjubikarnum á leið í úrslitaleikinn og hins vegar í 8 liða-úrslitum Poweradebikarsins og sigurinn sá var mjög mikilvægur á leiðinni að úrslitaleiknum. Þórsarar geta alveg slegið Haukana út en þeir verða að trúa því sjálfir. Þetta eru jafn góð lið en Haukarnir hafa verið stöðugri eftir áramótin í leik sínum en ég hef trú á að mínir menn séu að koma upp aftur eftir nokkurn öldudal að undanförnu. Það býr svo mikið í þessu Þórsliði og nú er staðurinn og stundin að koma upp á réttum tíma á föstudaginn þann 18.3 í Schenkerhöllinni og taka heimavallaréttinn af Haukunum með því að vinna þá á eigin parketti.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Hauka?

Haukarnir eru með geysilega vel þjálfað lið, megnið af liðinu eru heimaldir eða 10 af 12 leikmönnum þeirra, og þeir spila mjög agað. Þeir eru einkar sterkir varnarlega, ég myndi segja að þeir séu frekar grófir í vörn og virðast hafa komist of oft upp með það. En sóknarlega eiga þeir mörg spil á hendi en þar draga margir vagninn. Stjarna liðsins er tvímælalaust hinn ungi Kári Jónsson sem á eftir að verða frábær körfuboltamaður þegar fram líða stundir. Varnarleikur Haukanna er þeirra styrkleiki en þeim hættir til að spila gróft en ef dómarar taka á þeim kvilla að þá er að sjá hvernig þeim gengur eftir það. Tveir lykilmenn þeirra, EB og FM, eru í þessum grófleikapakka og munu þá horfa á flesta leiki seríunnar af hliðarlínunni eftir að hafa refsivist með 5 villur á bakinu. Sterk vörn er styrkleiki en grófleikinn er hins vegar veikleikinn. Kaninn þeirra, Mobley, minnir á vorn Junior Hairstone, þrælhittinn fyrir utan 3ja stiga línuna þegar sá gállinn er á honum.

 

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Þórs?

Helsti styrkleiki Þórs hefur ekki verið varnarleikurinn á undangengnum árum, öðru nær, heldur hefur hann frekar verið veikleikaþáttur nema endrum og sinnum hefur hann hrokkið í gang og þá hefur vörnin verið býsna góð. Já, það er sóknarleikurinn sem er frekar sterkur hjá Þórsurum þar sem það eru margir leikmenn sem geta skotið bæði fyrir utan 3ja stiga línuna og eins tekið skot inni í teig. Einnig eru gegnbrotsleikmenn snjallir í liðinu en hraði er sterkur þáttur í sóknarleik liðsins. Á stundum vilja menn ljúka sóknum full snemma en ég hef trú á því að menn hafi læknast að mestu af þeim kvilla og einnig af þeim kvilla að spila „sóló“ heldur reyni að leita að þeim leikmanni sínum sem er í besta skottækifærinu. En styrkleikarnir geta breyst auðveldlega í veikleika ef „kollurinn“ er ekki rétt stilltur, og svo á um við hjá báðum liðum. Þórsliðið samanstendur af 9 heimaöldum drengjum í 12 manna hópnum, eiginlega hægt að segja 10 með Ragnari Ágústi sem kemur úr Hveragerði, og var „sjanghajaður“ niðureftir, og þessir leikmenn eru búnir að leika saman býsna lengi og það er einn af helstu styrkleikum liðsins án nokkurs vafa.

 

Hvaða leikmaður Þórs er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Einfalt svar er við þessari spurningu. Það er lykilatriði að Vance Michael Hall leiki eins og hann á að sér. Hann er skruggugóður leikmaður en hann vinnur þetta ekki einn nema að á hann renni svipað „æði“ og á Junior Hairstone um árið gegn Stjörnunni. En lykilatriði er að tvíeykið „Emilinatorinn/og Dunkin Donuts“ verði með byssurnar vel heitar en þær hafa á stundum verið frekar kaldar. Þeir tveir eru sjaldan saman inni á parkettinu svo ég kalla þá saman sem einn leikmann, þeir verða að vera með „miðið“ vel klárt, en jafnframt spila afar agað.

 

Hvernig á serían eftir að fara?

Ég vonast til að við Þórsarar vinnum þetta 3-0 þrátt fyrir heimaleikjarétt Haukanna. En líklega verður sú ekki raunin. Og Haukarnir munu ekki vinna okkur neitt frekar 3-0, svo mikið er víst. Einhvern veginn segir tilfinningin mér að einvígið fari 3-1 á annan hvorn veginn og ég ætla bara rétt að vona að það verði á Suðurstrandarveg okkar Þórsara. Fyrir utan KR voru Haukarnir erfiðustu andstæðingarnir að mæta, ég hefði frekar viljað mæta Stjörnunni eða Keflavík í 1. umferðinni. Það hefðu verið skemmtileg einvígi hvort sem hefði komið til.

 

Ef grænt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Þetta er auðveld spurning. Ég hætti 2010 að halda með KR en það er annað lið sem ég ber góðar taugar til og það er lið Stjörnunnar í Garðabæ. Þar ríkir góður andi og það er mín tilfinning að það sé allt í mjög góðu á milli stuðningsmanna Þórs og Stjörnunnar, og liðin vilja að þeim hvort um sig gangi vel nema þegar þau mætast, þá náttúrulega er það bara sigur á annan hvorn veginnn. Garðabær er grænn bær þrátt fyrir litinn á búningnum, svo mikið er víst. Það var æðislegt að vera í hópi stuðningsmanna Stjörnunnar í fyrra þegar Stjarnan vann KR alls óvænt í Poweradebikarúrslitunum. Ástæðan fyrir því að KR vann Þór núna var sú að KR-stuðningsmenn fengu úthlutað hið sama pláss og Stjörnumenn fengu í fyrra…pælið í því. Samsæriskenningu er hér með hrundið á flot!

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -