Undir 20 ára karlalið Íslands mátti þola tap gegn Slóveníu í dag í þriðja leik sínum á Evrópumótinu í Gdynia í Póllandi, 68-98. Leikurinn var sá síðasti í riðlakeppni mótsins, en áður hafði liðið tapað fyrir Litháen og unnið Svartfjallaland.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Almar Orri Atlason með 14 stig og 4 fráköst. Þá skiluðu Ágúst Goði Kjartansson 10 stigum, 4 fráköstum, Tómas Valur Þrastarson 10 stigum, 5 fráköstum, 5 stoðsendingum, Leó Curtis 10 stigum, 8 fráköstum og Elías Pálsson 10 stigum.
Næst á dagskrá hjá Íslandi eru 16 liða úrslit mótsins, en ekki er ljóst hvaða liði Ísland mætir í þeim. Lokaleikur riðils Íslands fer fram nú í kvöld á milli Litháen og Svartfjallalands og sker hann úr um hvort Ísland endar í 3. eða 4. sæti riðlakeppninnar.