Undir 20 ára karlalið Íslands mátti þola tap í dag gegn Litháen í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í Póllandi, 93-63. Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur dagsins aldrei neitt sérstaklega jafn eða spennandi, en Litháen var með forystuna allt frá fyrstu mínútum til enda leiksins.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Tómas Valur Þrastarson með 11 stig og 4 fráköst. Honum næstur var Leó Curtis með 10 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.
Það er stutt á milli leikja hjá Íslandi í þessu móti, en næst leika þeir gegn Svartfjallalandi kl. 11:00 að íslenskum tíma á morgun sunnudag 14. júlí.