Undir 18 ára lið Íslands mátti þola tap gegn Eistlandi í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð. Liðið því tapað einum leik og eru fjórir eftir af mótinu, en næst eiga þær leik á morgun gegn Danmörku.
Fyrir leik
Í lið Ísland vantaði í dag Arnór Tristan Helgason sem er frá vegna meiðsla. Samkvæmt heimildum Körfunnar meiddist Arnór á dögunum og óvíst er hvenær hann verður aftur kominn í leik með liðinu. Ekki er þó lokað fyrir það að það verði á næstu dögum.
Í byrjunarliði Íslands í leik dagsins voru Birkir Hrafn Eyþórsson, Viktor Jónas Lúðvíksson, Magni Thor Grissom, Stefán Orri Davíðsson og Kristófer Breki Björgvinsson.
![](https://www.karfan.is/wp-content/uploads/2024/07/448841109_412409348463957_5118843932598208149_n-1024x768.jpg)
Gangur leiks
Eistneska liðið byrjaði leik dagsins af miklum krafti. Voru duglegir að sækja á körfuna og uppskáru 9 stiga forskot er fyrsti fjórðungur var á enda, 16-25. Enn bætir Eistland svo við forskot sitt í upphafi annars leikhlutans og eru komnir með 18 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-51.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kristófer Breki Björgvinsson og Birkir Hrafn Eyþórsson með 7 stig hvor.
Íslenska liðið gerir nokkuð vel að vinna niður forskot Eistlands í upphafi seinni hálfleiksins og eru komnir 10 stigum frá þeim þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af þeim þriðja, 49-59. Þeir ganga svo enn frekar á lagið og koma muninum niður í sex stig fyrir lokaleikhlutann, 53-59. Leikurinn helst nokkuð jafn vel inn í fjórða leikhlutann og er munurinn enn fimm stig þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum, 61-66. Leikurinn er gríðarlega jafn inn í brakmínúturnar, staðan 72-73 þegar rúm mínúta er eftir. Ísland náði forystunni þegar 19 sekúndur voru eftir af leiknum, 77-76. Fóru nokkuð illa að ráði sínu í sókn Eistlands þar á eftir og fengu dæmda á sig óíþróttamannslega villu, Eistland setur bæði vítin sín og þau er liðið fékk eftir að Ísland braut aftur með 8 sekúndur eftir, 77-80. Undir lokin fékk Ísland ágætis tækifæri til að jafna leikinn og senda hann í framlengingu, en allt kom fyrir ekki, Eistland vann með 2 stigum, 79-81.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Birkir Hrafn Eyþórsson með 20 stig, 6 fráköst og 2 stolna bolta. Þá skilaði Viktor Jóna Lúðvíksson 4 stigum, 13 fráköstum, 4 stoðsendingum og Kristófer Breki Björgvinsson var með 18 stig, 4 fráköst og 4 stolna bolta.
Kjarninn
Líkt og undir 18 ára lið stúlkna gerðu drengirnir sér mikinn óleik með að grafa sér 20 stiga holu gegn Eistlandi í fyrri hálfleik. Jákvætt þó að líkt og stúlkurnar náðu þeir að grafa sig úr holunni og gera þetta að spennandi leik á lokakaflanum. Niðurstaðan þó jafn svekkjandi, annað tap fyrir Eistlandi.
Hvað svo?
Íslenska liðið á leik næst á sama tíma á morgun þriðjudag kl. 16:00 gegn Danmörku.