spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaLurkabolti Leiknismanna Laugdælum að falli

Lurkabolti Leiknismanna Laugdælum að falli

Stórleikur lokaumferðarinnar í annarri deildinni fór fram laugardaginn 29. mars í Unbroken Höllinni í Breiðholti, en þar áttust við Aþena/Leiknir og Laugdælir í leik upp á annað sæti deildarinnar og þar með heimavallarrétt í undanúrslitum (þar sem liðin tvö mætast á ný!). Flestir unnendur 2. deildarinnar vita að hér voru tvö gjörólík lið að mætast; ungt og fimt lið Laugdæla og hinn umtalaði Lurkabolti Leiknismanna. 

Leiknismenn mættu einbeittir til leiks og náðu fljótt 10 stiga forystu í stöðunni 16-6, þar sem Ingvi lék á alls oddi í sókn Leiknismanna og setti 10 stig á upphafsmínútum leiksins. Eftir slaka byrjun duttu Laugdælir í gang og var jafnræði með liðunum út leikhlutann. Laugdælir áttu þó erfitt með að setja boltann ofan í af öðrum stað en á vítalínunni og náðu bara að skora fimm hefðbundnar körfur í leikhlutann gegn tólf frá Leikni og lauk leikhlutanum með 12 stiga forystu Leiknis (31-19). 

Liðin skiptust á körfum í upphafi annars leikhluta og var það aðallega Belginn Dierynck sem hélt Laugdælum inni í leiknum. Dierynck var snemma í öðrum leikhluta kominn með 13 stig og endaði alls með 15 í fyrri hálfleik. Munurinn hélst þó í tveggja stafa tölu nánast allan leikhlutann og með stuttu 7-2 áhlaupi undir lok hans öðluðust Leiknismenn þægilegt sextán stiga forskot þegar fyrri hálfleik lauk. Hálfleikstölur voru 48-32 Leikni í vil. 

Stigaskor Leiknismanna dreifðist vel og allir sem lögðu hönd á plóg í þeim efnum og strax í fyrri hálfleik voru 8 Leiknismenn komnir á blað. 

Líkt og í upphafi leiks hófu Leiknismenn síðari hálfleikinn af krafti og komu forystunni fljótt upp í 20 stig. Þar af leit fyrsta karfan frá Þresti loks dagsins ljós en hann hafði hægt um sig í stigaskorun í leiknum enda með það krefjandi og orkufreka verkefni að halda Babatunde, kraftframherja Laugdæla frá Nígeríu, í skefjum allan leikinn sem fórst honum vel úr hendi. 

20 stiga forysta Leiknis hélst framan af leikhlutanum en með góðum endaspretti frá Laugdælum undir lok leikhlutans náðu þeir að auka spennu leiksins og minnka muninn niður í 14 stig. Stigaskor að lokum þremur leikhlutum 67-53 Leikni í vil. 

Laugdælir voru síður en svo hættir og settu tóninn strax í þeim fjórða með 11-0 áhlaupi og þurrkuðu fljótt upp muninn milli liðanna. Í stöðunni 67-64 tók Lásinn, þjálfari Leiknismanna, leikhlé og stappaði stálinu í sína menn. Leiknismenn sýndu frábæran karakter og svöruðu með 11-1 áhlaupi og náðu aftur stjórn yfir leiknum. Munurinn hélst í 12-14 stigum út leikhlutann og sigldu Leiknismenn sterkum og fremur öruggum sigri í hús. 

Lokatölur: 86-72 Leikni í vil og tryggði Leiknir þar með annað sæti deildarinnar með 14 sigra og 4 töp.  

Stigaskor:

Leiknir – Ingvi 21, Einar og Dzemal 16, Elvar 11, Guðjón 7, Vésteinn 5, Þröstur og Arnar 4 og Haffi 2. 

Laugdælir – Logi 21, Dierynck 19, Baba 15, Kári 10, Frank 5 og Dagur 2

Fréttir
- Auglýsing -