Leikmaðurinn Luka Doncic sem leikur með Real Madrid í Euroleague var í kvöld valinn MVP Euroleague deildarinnar tímabilið 2017-2018. Hann tekur við titlinum af liðsfélaga sínum Sergio Llull.
Doncic sem er einungis 19 ára gamall varð þarf með yngstur til þess að hljóta þessa viðurkenningu. Fyrrum methafi var Milos Teodosic núverandi leikmaður LA Clippers sem var valinn bestur árið 2010 þá 23 ára gamall er hann lék með Olympiakos.
Slóvenska ungstirnið var með 16,1 stig, 4,8 fráköst og 4,4 stoðsendingar að meðaltali í leik í Euroleague á tímabilinu. Hann hjálpaði liði sínu að ná í úrslitaleik mótsins með sigri á stórliði CSKA Moskvu í gær.
Auk þess að vera valinn MVP deildarinnar var hann einnig valinn besti ungi leikmaðurinn og í úrvalsliðinu. Hann er fyrstur í sögunni til að vinna bæði MVP og besti ungi leikmaðurinn á sama tímabili.
Doncic er talinn líklegur til að vera valinn númer eitt eða tvö í nýliðavali NBA deildarinnar sem fram fer í júní. Real Madrid mætir Fenerbache í úrslitum Euroleague 2018 á morgun, sunnudag kl 19:00.
Mynd / Eurohoops.