spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaLucic-systur kveiktu í Grindavík og jöfnuðu metin

Lucic-systur kveiktu í Grindavík og jöfnuðu metin

Oddaleikur mun ráða því hvort Njarðvík eða Grindavík tekur sæti í úrvalsdeild kvenna á næstu leiktíð. Í kvöld jafnaði Grindavík einvígið 2-2 eftir að hafa lent 2-0 undir. Að þessu sinni voru það Lucic-þríburarnir sem kveiktu í Grindavíkurliðinu og komu þeim yfir erfiðasta hjallinn.

Janno Jaey Otto var stigahæst í liði Grindavíkur með 23 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar og þá átti Hekla Eik Nökkvadóttir enn einn afburða leikinn með 17 stig og 6 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Chelsea Jennings með 26 stig, 11 fráköst og 5 stolna bolta og Helena Rafnsdóttir bætti við 16 stigum og 12 fráköstum.

Saga leiksins

Njarðvíkingar voru sterkari framan af. Leiddu 14-21 eftir fyrsta og 27-37 í hálfleik. Í síðari háflleik þéttu Grindvíkingar varnarleikinn sinn og Njarðvíkingum varð lítið ágengt. Í upphafi fjórða leikhluta voru þríburarnir Natalía Jenný Lucic, Thea Ólafía Lucic og Anna Margrét Lucic kveikjan að því að Grindavík jafnaði leikinn og komst yfir. Thea Ólafía sem dæmi gerði fyrstu fimm stig Grindavíkur í fjórða áður en Anna Margrét mætti með þrist til að kóróna 8-1 byrjun Grindavíkur í fjórða. Lokaspretturinn varð æsispennandi en þessi rimma er að verða ansi hjartastyrkjandi!

Janno kom Grindavík í 61-60 og Chelsea kom Njarðvík yfir 61-62 þegar 1.12 mín voru eftir. Aftur var Janno á ferðinni og nú með huggulegan snúning á blokkinni og kom Grindavík í 65-64. Næsta sókn Njarðvíkinga gaf ekki stig og urðu grænar að brjóta á Grindavík með 6 sekúndur til leiksloka. Hekla Eik lét eins og hún hefði aldrei gert neitt annað en taka pressuvíti og sökkti báðum, 67-64 og Njarðvíkingar brunuðu í lokasókn og reyndu þrist til að jafna en hann geigaði og því sigur hjá Grindavík og oddaleikur í Njarðvík á laugardag!

Síðustu tvo leiki hafa Grindvíkingar lent undir í fyrri en reynst sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Úr er að verða ansi forvitnilegur oddaleikur í Njarðtaksgryfjunni á laugardag. Mikil refskák á sér stað í einvíginu og tipparar landsins fá snúið verkefni fyrir oddaleikinn.

Tölfræði leiks
Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -