Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn lögðu land undir fót og heimsóttu Vestra á Jakanum á Ísafirði í kvöld í Subwaydeild karla.
Heimamenn voru án síns eins besta manns í vetur, Julio de Assis, en hann hefur yfirgefið liðið og samið við Ourense á Spáni.
Þrátt fyrir það byrjaði Vestri leikinn betur og leiddi mest allan fyrsta leikhluta en staðan í lok hans var 21-18 Vestra í vil. Vestri komst mest sex stigum yfir í öðrum leikhluta áður en Þór jafnaði leikinn með tveimur þriggja stiga körfum í röð frá Emil Karel Einarssyni og Luciano Massarelli. Jafnræði var með liðunum út leikhlutann en Glynn Watson tryggði gestunum 45-42 forustu í hálfleik með tveimur körfum í röð á síðustu mínútu hans. Fyrrnefndur Massarelli snögghitnaði í leikhlutanum og setti í honum 12 stig.
Seinni hálfleikur var algjörlega eign Íslandsmeistarana en þeir skildu heimamenn eftir í þriðja leikhluta sem þeir unnu 26-16 á bakvið góðan leik Massarelli sem bætti við öðrum 12 stigum. Yfirburðir Þórsara héldu áfram í lokafjórðungnum og fór svo að lokum að þeir unnu 20 stiga sigur, 101-81.
Hjá Vestra var Marko Jurica bestur en hann fór mikinn í fyrri hálfleik og skoraði þar 19 af 28 stigum sínum. Næstir honum voru Ken-Jah Bosley með 21 stig, Nemanja Knezevic með 13 stig og 14 fráköst og Rubiera Alejandro með 11 stig.
Luciano Nicolas Massarelli hjá Þór var besti maður vallarins og endaði stigahæstur með 29 stig en hann setti niður 9 af 11 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Næstir komu Glynn Watson með 23 stig, Ronaldas Rutkauskas með 15 stig og Daniel Mortensen með 12 stig og 11 fráköst.