Haukar skrifuðu í dag undir samninga við leikmenn fyrir komandi leiktíð í Dominos deild kvenna. Þá var formlega gengið frá félagaskiptum Lovísu Henningsdóttur til Hauka.
Lovísa hefur leikið með Martst háskólanum síðustu ár við góðan orðstýr en hún lenti í nokkrum meiðslum á næst síðasta ári sínu við skólann en kom sterk til baka á því síðasta. Hún var með 7,6 stig að meðaltali í leik fyrir Marist á útskriftarári sínu.
Lovísa er uppalin hjá Haukum og snýr því aftur á heimahagana en hún viðurkenndi í samtali við mbl að hugur hennar leitaði út eftir næsta tímabil.
Einnig voru endurnýjaðir samningar við eftirfarandi leikmenn: Þóra Kristín Jónsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Sigrún Björg Ólafsdóttir, Magdalena Gísladóttir, Rósa Björk Pétursdóttir og Bríet Lilja Sigurðardóttir. Einnig var tilkynnt formlega um félagaskipti Auðar Írisar Ólafsdóttur.
Haukar enduðu í sjötta sæti Dominos deildar kvenna eftir nýliðna deildarkeppni en íslandsmeistarar síðasta árs náðu ekki að verja titilinn í ár. Spennandi verður að sjá hvort Lovísa getu hjálpað liðinu að komast í úrslitakeppnina á nýjan leik.
Bragi Magnússon formaður körfuknattleiksdeildar Hauka sagði við undirskriftirnar: “Við ætlum sterkt á eftir titli eða gerum atlögu með fullt lið af heimakonum. Við erum mjög stolt af þeirri staðreynd.“
Viðtöl við Lovísu Björt, Auði Írisi og Ólöfu Helgu Pálsdóttur þjálfara liðsins eru væntanleg á Körfuna síðar í dag.