spot_img
HomeFréttirLovísa Björt mun spila fyrir Marist College

Lovísa Björt mun spila fyrir Marist College

Haukakonan Lovísa Björt Henningsdóttir samþykkti nýverið að spila fyrir Marist College háskólann á fullum skólastyrk.

 

Þetta gekk ekki allt áfallalaust en hún hafði áður gefið University of North Florida vilyrði um að spila fyrir þá. "Svo viku seinna fékk ég hringingu frá aðalþjálfaranum sem sagði mér að allt þjálfarateymið hefði verið rekið," sagði Lovísa í stuttu spjalli við Karfan.is. "Skólinn var því ekki bundinn af því sem fyrra þjálfarateymi hafði ákveðið fyrir utan þá sem höfðu þegar skrifað undir."

 

Lovísa fór því á fullt að kanna fleiri skóla en alls höfðu 8 skólar áhuga á að fá hana í heimsókn, en NCAA reglur leyfa aðeins heimsóknir til 5. "Svo ég varð að velja vel," bætti hún við.

 

Þar á meðal var Loyola skólinn í Chicago, þar sem fyrrum WNBA leikmaðurinn Sheryl Swoopes þjálfar.

 

Lovísa endaði með að velja Marist College sem er í Metro Atlantic riðlinum í 1. deild NCAA, en hann er staðsettur rétt norður af New York borg.

 

"Marist er í toppbaráttu hvert ár og á síðustu 12 árum hafa þær komist 10 sinnum í March Madness," sagði Lovísa spennt.  

 

Hún mun hefja nám við skólann í júní nk þar sem skólinn fer fram á að íþróttamennirnir taki 6 vikna sumarkúrs til að minnka álagið þegar tímabilið hefst.

Fréttir
- Auglýsing -