Selena Lott splæsti í þrennu í kvöld þegar Njarðvík tók 2-0 forystu í undanúrslitaeinvíginu gegn Grindavík í Subway-deild kvenna. Njarðvíkingar komnir í kjörstöðu í einvíginu og það gerðu þær án Jönu Falsdóttur sem hvíldi í kvöld eftir höfuðhöggið sem hún hlaut í fyrsta leik rimmunnar.
Selena Lott fór mikinn í þriðja leikhluta hjá Njarðvík í kvöld og lauk svo leik með 24 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar og þá var hún einnig með þrjá stolna bolta.
Njarðvík leiddi 21-17 eftir fyrsta leikhluta og 33-29 í hálfleik. Það var lítið skorað í leiknum í kvöld og skotnýting liðanna hefur verið talsvert betri eins og lokatölurnar 66-58 gefa til kynna.
Njarðvíkingar hófu síðari hálfleik á 10-5 spretti og komust í 43-33 og náðu svo mest 22 stiga forystu. Á lokaspretti leiksins sýndu Grindvíkingar loks sparihliðarnar og hófu að saxa niður muninn en skaðinn var fyrir löngu skeður og gestirnir náðu aldrei að hóta því almennilega að jafna metin og lokatölur 66-58.
Þrátt fyrir aðeins 13% þriggja stiga nýtingu tókst Njarðvík að hafa mjög góð tök á leiknum og þar vó þungt að Isabella Ósk átti frábæran leik ásamt Selenu en heilt yfir var það sterk liðsvörn heimakvenna sem lagði grunninn að góðum sigri. Ásamt því að gera 21 stig var Isabella einnig með 11 fráköst en hún og Hesseldal réðu ríkjum í teignum í kvöld því Hesseldal bætti við 10 stigum og 15 fráköstum.
Hjá Grindavík var Danielle Rodriguez með 17 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar en framan af leik vantaði sárlega meiri ógnun af leikmönnum eins og Brasils. Sarah Mortensen bætti svo við 13 stigum og 5 fráköstum.
Þriðja viðureign liðanna fer fram í Smáranum í Kópavogi mánudaginn 5. maí næstkomandi. Með sigri eru Njarðvíkingar komnir í úrslit deildarinnar og Grindvíkingar í sumarfrí svo það má fastlega gera ráð fyrir alvöru rimmu næsta mánudag.