Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt þar sem bæði Los Anegeles liðin, Lakers og Clippers, máttu sætta sig við ósigur á útivelli. Clippers lágu 104-102 gegn Memphis Grizzlies og Lakers töpuðu stórt gegn San Antonio 105-85.
Því fylgir sögunni að í viðureign Spurs og Lakers hafi Kobe Bryant þurft að yfirgefa völlinn í þriðja leikhluta og lék hann ekki meir sökum eymsla í baki. Þá var Pau Gasol enn fjarverandi í liði Lakers sökum meiðsla á hásin. Andrew Bynum var stigahæstur í tapliði Lakers með 23 stig en í sigurliði Spurs gerði Tim Duncan 25 stig og tók 13 fráköst.
Rudy Gay fór fyrir Grizzlies sem lögðu Clippers með 24 stig og 6 fráköst en í liði Clippers fór Baron Davis á kostum með glæsta þrennu eða 27 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar.
Önnur úrslit næturinnar:
Charlotte 102-94 Houston
Washington 90-99 Detroit
Sacramento 88-109 Orlando