spot_img
HomeFréttirLos Angeles, Boston og Oklahoma meðal viðkomustaða Tryggva síðustu daga

Los Angeles, Boston og Oklahoma meðal viðkomustaða Tryggva síðustu daga

Tryggvi Snær Hlinason leikmaður Íslenska landsliðsins og Valencia hefur ferðast um öll Bandaríkin síðustu daga þar sem hann æfingum hjá nokkrum NBA liðum undanfarið. Dallas, Phoenix og Denver skoðuðu Bárðdælinginn unga fyrir helgi en á Twitter hjá Benedikti Guðmundssyni fyrrum þjálfara Tryggva kemur fram að hann hafi verið í Los Angeles, Boston síðustu daga og muni svo ljúka þessu æfingaferli hjá Oklahoma Thunder á morgun. 

 

 

„Það hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt að heimsækja hin ýmsu lið að undanförnu. Á hverjum degi ferðast ég til nýrrar borgar til að sýna NBA þjálfurum hvað í mér býr. Þetta er krefjandi ferli en á sama tíma afar spennandi,“ sagði Tryggvi um ferðalögin síðustu daga og bætti við. „Að vera hluti af þessu ferli sem NBA nýliðavalið er, er öðruvísi en á sama tíma er ég mjög stoltur og hlakka fimmtudagskvöldsins.“

 

Samkvæmt nýrri spá frá ESPN sem kom fyrr í dag er Tryggva spáð valrétt númer 60 af Philadelphia 76'ers. Síðan DraftSite.com er svo með Tryggva í valrétt 49 sem er í höndum San Antonio Spurs. Hafa skal í huga að eignarréttur valrétta í annari lotu getur breyst nokkuð en talið er að einhver leikmannaskipti gætu orðið að kvöldi nýliðavalsins og með þeim gætu fylgt valréttir í annari lotu sem ganga oft kaupum og sölum. 

 

Tryggvi verður í Barclays Arena á fimmtudagskvöld og ef allt gengur að óskum verður hann NBA leikmaður á aðfaranótt föstudags. Foreldrar hans verða honum til stuðnings í New York og einnig þeir Ágúst Guðmundsson og Benedikt Guðmundsson fyrrverandi þjálfarar hans og einnig verður Hannes S. Jónsson formaður KKÍ viðstaddur.

 

Fréttir
- Auglýsing -