KR lagði Blika á Meistaravöllum í kvöld í Subway deild karla, 112-109. Eftir leikinn er KR í 12. sæti deildarinnar með 4 stig á meðan að Blikar eru í 6. sætinu með 14 stig.
Fyrir leik
Þrátt fyrir ólíka stöðu í deildinni þurftu bæði lið sárlega á sigri að halda í kvöld. Blikar búnir að tapa síðustu þremur deildarleikjum á meðan taphrina KR var komin í 8 leiki.
Gangur leiks
Leikurinn er nokkuð jafn og spennandi á upphafsmínútunum þrátt fyrir að Breiðablik hafi verið með undirtökin lengst af í fyrsta fjórðung. KR nær þó að jafna leikinn og vera skrefinu á undan fyrir annan leikhlutann, 28-26. Í öðrum leikhlutanum var komið að KR að vera með forystuna. Fara mest 11 stigum yfir undir lok fyrri hálfleiks, en Blikar gera vel að stoppa í gatið og er munurinn enn bara 2 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 60-58.
Atkvæðamestur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var hinn efnilegi Lars Erik Bragason sem setti 12 stig og tók 5 fráköst. Fyrir Blika voru bærði Julio De Assis og Jeremy Smith með 13 stig.
Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. KR hótar því aftur að komast vel yfir, en Blikar koma aftur til baka og halda leiknum nánast jöfnum út þriðja leikhlutann, 90-89. Í þeim fjórða nær KR svo að sigla framúr og eru þeir komnir með 10 stiga forskot þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum, 103-93. Blikar gera heiðarlega atlögu að forskotinu á lokamínútunum og eru aðeins 5 stigum undir þegar um 2 mínútur eru eftir, 108-103. Undir lokin nær Breiðablik svo minnst að minnka muninn í 3 stig og fá þeir álitlegt tækifæri til þess að jafna leikinn á lokasekúndunum, en allt kemur fyrir ekki. KR sigrar að lokum með 3 stigum, 112-109.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur fyrir KR í kvöld var Þorvaldur Orri Árnason með 20 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Lars Erik Bragason með 14 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar.
Fyrir Blika var það Jeremy Smith sem dró vagninn með 34 stigum, 9 fráköstum og 6 stoðsendingum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst á föstudaginn eftir viku (27.01) KR heimsækir Hauka í Ólafssal og Breiðablik fær Val í heimsókn.