Það er við hæfi að 10. varapistillinn fjalli um stelpur. Síðasti pistill sem ég hripaði niður var undir yfirskriftinni að biðin væri loks á enda og við skildum hefja teitið. Jú, jú það er svo sem hægt að hefja teitið án stelpna en sé ætlunin að hafa það skemmtilegt er nauðsynlegt að stelpurnar fjölmenni og séu sem lengst því það tryggir gæði þess!
Úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna hefst í kvöld. Stelpurnar hefja leik í 4-liða úrslitum þar sem aðeins sjö lið eru í deild þeirra bestu kvennameginn á meðan þau eru 12 karlamegin. Já, árið 2016 er ekki hægt að búa svo um hnútana að jafn mörg lið séu í efstu deild karla og kvenna. Árið 2016 kjósa ákveðin lið að tefla ekki fram liðum í efstu deild kvenna því erfitt er að manna hópana en á sama tíma er hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum eytt í að manna karlalið sömu félaga. Já, það er ekki sama hvort lið eru „mönnuð“ eða „kvennmönnuð“…
En nóg um dálæti mitt á partýum og konum, kíkjum á einvígin;
Haukar – Grindvavík (2-3)
– Fyrir nokkrum vikum var ég þess fullviss að Haukar myndu rúlla yfir þetta mót. Í dag er ég ekki jafn sannfærður. Þar sem Grindavík náði að halda Keflavík frá úrslitakeppni í fyrsta skipti í sögunni á ég von á því að þær séu rétt að byrja. Liðið er fullt af hæfileikum og reynslu og þá fylgja einhverjir óútskýrðir ferskir vindar Daníel Guðmundssyni þjálfara. Ekki veit ég hvort hann eigi eitthvað eftir af eilífðardrykknum sem hann drakk og fær hann til að lýta svo unglega út að allir karlmenn öfunda hann og allir starfsmenn í Vínbúðinni segja af því sögur þegar þeir spurðu 30 ára manninn um skilríki en eitt er víst að ef hann nær að halda Petrúnellu og Ingibjörgu ferskum þá eru þessu Grindavíkurliði allir vegir færir…
– Haukastelpur eru auðvitað með best kvennmannaða lið landsins og ættu undir eðlilegum kringumstæðum að vinna. Það kæmi mér t.d. ekkert á óvart ef Helena og Pálína blæddu gylltu enda hafa þær sópað til sín gríðarlega* mörgum titlum í gegnum tíðina. Það er þó eitthvað sem segir mér að það hafi verið mistök að fara inn í úrslitakeppni án erlends leikmanns, þó augljóslega hafi sú sem var hjá liðinu í vetur ekki verið rétti kosturinn…
Snæfell – Valur (3-0)
– Snæfell eru meistararnir og líkt og Fannar Ólafsson sagði í körfuboltakvöldi á dögunum þegar hann vitnaði í Rudy Tomjanovic, fyrrum þjálfara Houston Rockets, skal aldrei vanmeta hjarta meistarans! Ég held að þær muni rúlla upp þessu einvígi við Val enda eru þær bæði með frábæra íslenska leikmenn og besta erlenda leikmann Domino´s deildar kvenna í Hayden Palmers…
– Til að Valsstúlkur eigi að geta strítt Snæfell þarf allt að ganga upp. Guðbjörg Sverrisdóttir, Hallveig Jónsdóttir og Bergþóra Tómasdóttir eru auðvitað allar frábærir leikmenn sem á góðum degi standast vel flestum snúning og þá er eitthvað „charisma“ yfir Karisma…
– Ekki hægt að segja skilið við þetta einvígi án þess að minnast á þjálfarana sem eiga það sammerkt að búa yfir rosalega** mikilli reynslu auk þess að hafa ekki dreypt á eilífðardrykknum hans Daníels Guðmundssonar, líkt og hárvöxturinn ber glögg merki…
* Höfundarréttur: Jón Halldór
** Höfundarréttur: Kjartan Atli