Undir 18 ára drengjalið Íslands lagði Noreg í dag í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 85-86. Liðið endaði í sjötta sæti mótsins þetta árið, en liðið vann einn leik og tapaði fjórum.
Fyrir leik
Sé litið til úrslita hafði íslenska liðið ekki riðið feitum hesti til þessa á Norðurlandamótinu. Fjórir tapleikir. Frammistöðurnar höfðu þó oft á tíðum verið ágætar, sem sást kannski helst í því að samanlagt höfðu þeir tapað þessum fjórum leikjum með samanlagt 30 stigum, eða 7,5 stigum að meðaltali. Gengi Noregs á mótinu nokkuð ólíkt, þeir höfðu unnið þrjá leiki og tapað einum, en þeirra eina tap var gegn Finnlandi sem sat í efsta sæti mótsins fyrir lokadaginn.
Í byrjunarliði Íslands í dag voru Viktor Jónas Lúðvíksson, Birkir Hrafn Eyþórsson, Lúkas Aron Stefánsson, Kristófer Breki Björgvinsson og Frosti Valgarðsson.
Gangur leiks
Óhætt er að segja að sóknarleikurinn hafi verið í fyrirrúmi hjá báðum liðum í upphafi leiks, þar sem 50 stig eru skoruð í fyrsta leikhlutanum. Norðmenn eru snöggir að ná tökum á leiknum og leiða með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, 28-22. Ísland gerir vel að vinna niður forskot Noregs og komast þeir yfir með tveimur vítum frá Viktori Jónasi þegar 3 mínútur eru liðnar af öðrum fjórðung, 32-33. Enn ná þeir svo að ganga á lagið undir lok hálfleiksins, þar sem forysta þeirra fer mest í sjö stig, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn fimm stig, 44-49.
Stigahæstur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Thor Grissom með 11 stig og þá voru Birgir Leó Halldórsson og Lars Erik Bragason með 9 stig hvor.
Ísland heldur forystu sinni í upphafi seinni hálfleiksins, en með góðu áhlaupi um miðjan þriðja fjórðung nær Noregur aftur yfirhöndinni. Íslenska liðið er þó fljótt að taka við sér og helst leikurinn í járnum út leikhlutann. Ísland leiðir með tveimur stigum fyrir lokaleikhlutann, 69-71.
Íslenska liðið bætir við forystu sína í upphafi þess fjórða og með þrist frá Thor Grissom þegar um fimm mínútur eru til leiksloka eru þeir komnir með 10 stiga forystu, 74-84. Leikar haldast svo nokkuð jafnir inn í brakmínútur leiksins og þegar mínúta er eftir leiðir Ísland með þremur stigum, 83-86. Undir lokin gera þeir vel að passa boltann og er það Viktor Jónas Lúðvíksson sem innsiglar sigurinn með vörðu skoti þegar tíminn rennur úr, 85-86.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir í liði Íslands í dag voru Thor Grissom með 14 stig, Lars Erik Bragason með 9 stig, 8 fráköst og Birkir Hrafn Eyþórsson með 10 stig, 4 fráköst og Viktor Jónas Lúðvíksson með 13 stig, 6 fráköst og 2 stolna bolta.
Kjarninn
Úrslit íslenska liðsins á þessu Norðurlandamóti verða seint talin góð. Enda í sjötta sæti af sex, en þessir árgangar hafa unnið bronsverðalun síðustu ár og í einhver skipti verið í baráttu um að vinna mótið. Að því sögðu, þá voru allir leikirnir jafnir og spennandi og með smá lukku hefði liðið alveg getað verið í baráttunni um að komast á verðlaunapall á mótinu.
Hvað svo?
Næst á dagskrá hjá liðinu er Evrópumót í Makedóníu 26. júlí – 4. ágúst, en fram að brottför munu þeir æfa á Íslandi.