Álftanes hafði betur gegn Keflavík í Blue höllinni í kvöld í 12. umferð Bónus deildar karla, 87-89. Eftir leikinn er Keflavík í 5.-7. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan Álftanes eru einum sigurleik fyrir neðan í 8.-9. sætinu með 10 stig.
Fyrir leik
Gengi Álftnesinga fyrir leik kvöldsins ekki verið gott, en þeir höfðu tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum fyrir jólafríið. Aðeins meira upp og niður hjá Keflavík fyrir fríið, unnu þann síðasta, en af síðustu 10 höfðu þeir unnið 5 leiki.
Í lið Keflavíkur vantaði enn Marek Dolezaj og Hilmar Pétursson, sem frá höfðu verið í síðustu leikjum fyrir jólafrí. Samkvæmt heimildum mun vera mislangt í að þeir verði leikfærir, Hilmar seint í janúar, en Marek eftir 4 til 6 vikur.
Gangur leiks
Eftir að hafa farið frekar hratt af stað sóknarlega fyrstu fimm mínútur leiksins þar sem liðin skoruðu samanlagt 36 stig, 18-18, hægðist á leiknum undir lok fyrsta leikhluta. Eins stig munur fyrir annan fjórðung, 23-22. Keflvíkingar ná að vera skrefinu á undan lengst af undir lok fyrri hálfleiks, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan jöfn, 43-43.
Jaka Brodnik og Igor Maric fóru mikinn fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum með 11 stig hvor. Fyrir Álftanes var Haukur Helgi Pálsson stigahæstur með 12 stig.
Álftnesingar koma sterkir til leiks inn í seinni hálfleikinn. Setja fyrstu 17 stig þriðja leikhlutans og eru því með vænt forskot þegar hann er hálfnaður, 45-62. Heimamenn svara því áhlaupi nokkuð vel undir lok fjórðungsins, en gestirnir halda þó góðri forystu inn í lokaleikhlutann, 63-73.
Með herkjum heldur Álftanes í forystu vel inn í fjórða leikhlutann. Þegar um fimm mínútur eru til leiksloka eru heimamenn þó komnir ansi nálægt, munaði aðeins 5 stigum á liðunum, 74-79. Undir lok leiks eru Álftnesingar gífurlega skynsamir, setja boltann mikið í hendurnar á Justin James sem er gífurlega duglegur að koma sér á línuna. Heimamenn gera ágætlega í að koma sér í stöðu til að setla sigrinum undir lokin, en allt kemur fyrir ekki. Álftnesingar sleppa með sigurinn, 87-89.
Kjarninn
Það er óhætt að segja að það hafi sést eilítið á leik gestanna hversu hungraðir þeir voru í að sigra þennan leik. Leikurinn lengst af í járnum, en áhlaupið sem Álftanes náði í upphafi seinni hálfleiks virtist vera nóg fyrir þá í kvöld. Voru nokkuð skynsamir restina af seinni hálfleiknum, voru duglegir að koma sér á vítalínuna og pössuðu boltann mun betur heldur en þeir höfðu t.a.m. gert í fyrri hálfleiknum. Sterkur sigur fyrir þá á tölfræðilega erfiðum útivelli og fjögurra leikja taphrina á enda.
Atkvæðamestir
Fyrir Keflavík var Igor Maric atkvæðamestur með 20 stig, 2 fráköst og Remu Emil Raitanen skilaði 12 stigum og 12 fráköstum.
Fyrir Álftanes var Haukur Helgi Pálsson með 22 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar og David Okeke 20 stig og 8 fráköst.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst þann 9. janúar. Þá tekur Álftanes á móti Njarðvík í Forsetahöllinni á sama tíma og Keflavík fær Hött í heimsókn.