Í kvöld fer fram lokaumferðin í Domino´s deild karla, alls eru því sex leikir á dagskránni og hefjast þeir allir kl. 19:15. Þrír af leikjum kvöldsins eru í beinni netútsendingu og verður Sport TV í Borgarnesi með beint frá viðureign Skallagríms og KR. Þá er einn leikur í 1. deild karla þegar Höttur tekur á móti FSu kl. 18:30 á Egilsstöðum.
Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla, 19:15
KFÍ – Stjarnan (Beint á KFÍ TV)
Fjölnir – Grindavík
Tindastóll – ÍR (Beint á Tindastóll TV)
Keflavík – Njarðvík
Snæfell – Þór Þorlákshöfn
Skallagrímur – KR (Beint á Sport TV)
KFÍ-Stjarnan:
Ísfirðingar hafa tapað sex síðustu deildarleikjum sínum og eru í 11. sæti um þessar mundir. Stjarnan lá einnig í síðasta deildarleik svo það verða tvö hungruð lið sem mætast á Jakanum í kvöld.
Fjölnir-Grindavík
Grindvíkingar hafa unnið fjóra síðustu deildarleiki sína og eru á toppnum ásamt Þór Þorlákshöfn og Snæfell með 14 stig. Fjölnismenn unnu epískan sigur á ÍR í síðustu umferð en hafa þó tapað síðustu tveimur heimaleikjum sínum.
Tindastóll-ÍR
Eru Stólarnir komnir á bragðið eftir sinn fyrsta deildarsigur í Njarðvík í síðustu umferð? ÍR-ingar máttu sætta sig við súrt tap gegn Fjölni í síðustu umferð og mæta vísast grimmir í Skagafjörðinn í kvöld.
Keflavík-Njarðvík
Grannaliðin há nú enn eina baráttuna og má fastlega gera ráð fyrir að smekkfullt verði í Toyota-höllinni. Bæði lið sáu á eftir stigum í síðustu umferð svo þau verða ekki með neina vettlinga í kvöld. Hér ætti fólk að mæta tímanlega.
Snæfell-Þór Þorlákshöfn
Toppslagur í Hólminum, bæði lið á toppi deildarinnar með 14 stig, Snæfell er heitasta lið landsins um þessar mundir á heimavelli þar sem þeir hafa unnið fimm síðustu heimaleiki sína. Þórsarar hafa að sama skapi uninð tvo síðustu leiki sína á útivelli og alls fimm í röð og eru réttnefndir heitasta lið landsins um þessar mundir en þeir skelltu Keflavík sannfærandi í síðustu umferð. Þess má geta að Þór Þorlákshöfn hefur aldrei unnið deildarleik í efstu deild í Stykkishólmi!
Skallagrímur-KR
Vesturbæingar eru vaknaðir, þeirra tími er liðinn í bikarkeppninni þetta árið en þeir kyngdu þeirri staðreynd með sigri á Stjörnunni í Garðabæ í síðsta leik. Það var jafnframt fyrsta tap Stjörnunnar á heimavelli í vetur. Borgnesingar hafa tapað síðustu fjórum heimaleikjum sínum og eru orðnir langeygir eftir að sterkir menn rífi sig upp úr meiðslum.
Staðan í deildinni
Nr. | Lið | U/T | Stig |
---|---|---|---|
1. | Þór Þ. | 7/2 | 14 |
2. | Grindavík | 7/2 | 14 |
3. | Snæfell | 7/2 | 14 |
4. | Stjarnan | 6/3 | 12 |
5. | KR | 5/4 | 10 |
6. | Keflavík | 5/4 | 10 |
7. | Fjölnir | 4/5 | 8 |
8. | Skallagrímur | 3/5 | 6 |
9. | ÍR | 3/6 | 6 |
10. | Njarðvík | 3/6 | 6 |
11. | KFÍ | 2/7 | 4 |
12. | Tindastóll | 1/7 | 2 |