Grindvíkingar komu sáu og sigruðu Keflvíkingar í undan úrslitum Powerade bikarsins í dag í Toyotahöll þeirra Keflvíkinga. Eftir æsispennandi lokasekúndur leiksins voru það Grindvíkingar sem fögnuðu gríðarlega 83:84 sigri og þeir munu fara í Laugardalshöllina og leika til úrslita um bikarinn í ár. Núverandi bikarmeistarar Keflavíkur sitja hinsvegar heima með sárt ennið og sleikja sárinn og fara eflaust yfir það sem betur mátti fara í þeirra leik þetta kvöldið.
Í fyrsta leikhluta og framan af fyrstu 20 mínútum leiksins mátti vel greina hvort liðið var tilbúnara til þess að stunda körfuknattleik þennan sunnudags eftirmiðdag. Grindvíkingar voru að spila fanta vel á báðum endum vallarins og Keflvíkingar sem seint hafa verið taldir til að sýna mikla gestrisni voru linir og alls ekki sjálfum sér líkir. Grindvíkingar gengu á lagið og nýttu sér þetta til fulls. Strax í fyrsta fjórðung voru gestirnir úr Grindavík komnir með 7 stiga forskot.
Í öðrum leikhluta héldu Grindvíkingar áfram að berja á heitt stálið og með fanta góðum leik og baráttu voru þeir algerlega komnir í bílstjórasætið í þessum leik og leiddu með 14 stigum í hálfleik, 31:45. 31 stig hjá Keflvíkingum á heimavelli er sjaldséð sjón og hálfleiksræðan hefur eflaust verið nokkuð hvöss frá Sigga Ingimundarsyni þjálfara þeirra Keflvíkinga. Sú ræða hefur virkað að einhverju leiti því vörnin hjá Keflavík hertist og þeir hófu að dæla boltanum meira inní teig á Michael Craion sem hafði nánast varla séð tuðruna framan af leik.
Grindvíkingar duttu að sama skapi í smá kæruleysi og líkast til hefur læðst að þeim að þessi leikur hafði verið unnin í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að þeir hafi vitað betur. Það var nefninlega ekki lengra síðan en í síðustu viku voru það Stjörnumenn sem voru í sömu sporum, þeas í topp málum eftir fyrri hálfleik en töpuðu svo leiknum eftir gott “comeback” hjá Keflvíkingum. Keflvíkingar komust svo loksins yfir í stöðunni 69:68 þegar Micael Craion læddi boltanum snyrtilega í körfu Grindvíkinga. Eftir það var leikurinn í járnum og hvort liðið sem er hefði svo sem getað hirt sigurinn. Grindvíkingar voru hinsvegar að ná að skora “auðveldari” körfur ef svo er hægt að segja.
Á lokakaflanum skiptust liðin á að skora en í stöðunni 81:83 Grindvíkinga í vil var það títt nefndur Michael Craion sem spólaði sig að körfu Grindavíkur og skoraði ásamt því að brotið var á honum. En það er dýrkeypt að misnota víti í svona leik og það gerði Craion einmitt. Aaron Broussard fór svo á línuna hinumegin og setti niður annað vítið sem hann fékk (hefði einnig getað kostað sigurinn). Það var svo Billy Baptist leikmaður Keflvíkinga sem fór “coast to coast” og var hársbreidd frá því að tryggja Keflvíkinga í höllina en boltinn vildi ekki niður og Grindvíkingar fögnuðu sigrinum.
Punktar
– Magnús Þór Gunnarsson skytta Keflvíkinga náði sér aldrei á strik í þessum leik og munar um minna.
– Jóhann Árni Ólafsson og Davíð Bustion voru sem frakkar á Magnúsi allan leikinn og fékk hann engan frið
– Keflvíkingar misnotuðu 6 vítaskot á lokakaflanum í leiknum
– Darrel Lewis sem fór illa með Grindvíkinga í deildarleiknum fyrr í vetur skoraði aðeins 2 stig í fyrri hálfleik. Hann endaði hinsvegar leik með 21 stig.
– Sverrir Þór Sverrisson er að fara í Laugardalshöll annað árið í röð. Í fyrra tók hann bikarinn með kvennalið Njarðvíkur
- Keflavík hefur árin 1993 og 2003 verið með bæði kvenna og karla lið sitt í höllinni í úrslitum bikarsins. Vonast var til þess að það yrði rauninn einnig 2013 en það klikkaði.
– Keflavík fengu aðeins 2 stig af bekknum. Frá Grindavíkurbekknum komu 8 stig.
– Keflvíkingar hittu aðeins úr einu þriggjastiga skoti af 15.
Keflavík-Grindavík 83-84 (18-25, 13-20, 30-21, 22-18)
Keflavík: Michael Craion 27/14 fráköst/8 varin skot, Darrel Keith Lewis 23/11 fráköst, Billy Baptist 17/7 fráköst, Valur Orri Valsson 8/6 fráköst/7 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 6, Ragnar Gerald Albertsson 2, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Atli Már Ragnarsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0.
Grindavík: Aaron Broussard 25/15 fráköst/5 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 16, Jóhann Árni Ólafsson 15/6 fráköst, Samuel Zeglinski 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/6 fráköst/3 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 4/4 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 2, Davíð Ingi Bustion 2, Ólafur Ólafsson 0, Ryan Pettinella 0/5 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson