spot_img
HomeFréttirLognið undan storminum

Lognið undan storminum

Í Stykkishólmi mættust liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar, leikurinn skipti í raun engu máli nema Hamar myndi vinna Hauka og það verður að viðurkennast að það var fjarlægur draumur fyrir leik. Hamar sýndu þó í leiknum að þær eru sýnd veið en ekki gefin.

 

Það má því segja að leikmenn liðanna hafi verið með fókusinn á vitlausum stað í kvöld og var leikur liðanna eftir því. Snæfell byrjaði leikinn af krafti og virtust ætla að vera með hausinn á réttum stað. Bryndís, Gunnhildur og Haiden komu þeim í 8  – 0 áður en Ari tók leikhlé. Tvær mínútur liðnar og Valskonur ennþá á Vatnaleiðinni. Lítil hreyfing í sókninni hjá Val og voru þær flestar að bíða eftir að Karisma Chapman myndi mæta á svæðið. Þær fundu hana eftir leikhléið en ekkert vildi niður hjá henni. Það var ekki fyrr en Guðbjörg smellti þrist sem Valskonur komust á blað. Snæfellsdömur ákváðu að bíða eftir þeim og skoruðu ekki í 2-3 mínútur. Fallega gert hjá heimakonum en Valsarar voru að spila góða vörn á þessum tíma þó svo að sóknin væri ekki eins og best væri kosið. Sjö mínútur liðnar og staðan 15 – 3, Valsarar mjög langt frá sínu besta. Karisma var ísköld á þessum tímapunkti og klikkaði hverju sniðskotinu á fætur öðru. Ótrúlegt en satt eftir hrikalega byrjun Vals voru Snæfell aðeins 17 – 11 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Það sýnir hversu lágstemmdar Snæfellsstúlkur voru í leiknum, bekkurinn sat í rólegheitum og nikkaði hausnum þegar góð tilþrif litu dagsins ljós, ekki líkt þessum hressu og lífsglöðu stelpum sem spila fyrir Snæfell.

 

Annar leikhluti byrjaði á svipaðan máta og sá fyrsti nema hvað Andrea setti „flautuþrist“ tvo metra fyrir innan miðju, ekkert nema net – næsta sókna á eftir setur hún annað skot rétt fyrir innan þriggja. Eftir þessi fimm stig eru liðin að skiptast á því að skora. Valskonur með góða baráttu láta Snæfell hafa fyrir því að spila sinn leik og komast inn í leikinn með frábærri vörn. Snæfell virðist vera komnar inn í klefa, ráðleysið í sókninni og erfiðleikar í vörninni var algjört á þessum tímapunkti. Á meðan Valur fagnaði öllum smáatriðum voru Snæfellskonur uppteknar á því hversu illa gekk. Hólmarar fóru inn í hálfleikinn með eins stigs forskot 30 – 29, frábær annar leikhluti hjá Valskonum og fara þær með stemmninguna inn í hálfleikinn.

 

Sá þriðji fer í sögubækurnar fyrir klikkuð skot og sniðskot, þvílíkt  og annað eins en boltinn vildi bara ekki ofan í körfuna. Leikhlutinn byrjaði reyndar ágætlega með þristum frá Bergþóru Holton og Haiden Palmer en svo kom kaflinn þar sem undirritaður hefði átt að nota til að fara á klósettið. Valskonur komust yfir í leikhlutanum og leiddu allt þar til í lokinn en þá náðu Snæfellsstelpur að jafna leikinn 43 – 43. Oftast hefði verið rafmögnuð spenna með svona tölur á stigatöflunni en það var ekki raunin í kvöld.

 

Hólmarar sýndu sitt rétt andlit í fjórða leikhlutanum og létu þær boltann vinna fyrir sig í sókninni og héldu áfram að spila sína fínu vörn. Valur varð fyrir því óláni að missa Guðbjörgu Sverrisdóttur útaf vegna axlarmeiðsla en það munar um minna. Bryndís Guðmundsdóttir tók til sinna ráða og smellti hverri körfunni á fætur annari, hún þurfti þó helst að vera fyrir utan þriggja stiga línuna til að hitta. Líflína hjá Snæfell og um leið og boltahreyfingin leit dagsins ljós kom brosið fram úr skýjunum.

 

Snæfell klárar leikinn 66 – 58 og fara inn í úrslitakeppnina með bros á vör, vitandi að þær stóðu sig frábærlega í deildarkeppninni. Valskonur voru upp og niður og hljóta að nota þennan leik til að gíra sig inn í úrslitakeppnina.

 

Það sem allir leikmenn voru að bíða eftir í þessum leik er að verða að veruleika, jú úrslitakeppnin er að byrja á miðvikudaginn og mætast þessi lið í undanúrslitum Dominosdeild kvenna. Undirritaður veit að fyrsti leikur liðanna verður miklu meira fyrir augað og liðin munu mæta á fullum þunga í úrslitakeppnina.

Gleðilega úrslitakeppni!

 

Texti: GS

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -