Logi Gunnarsson fór á kostum þegar Solna Vikings tók á móti meisturum Sundsvall með þá Jakob, Pavel og Hlyn í fararbroddi. Þrátt fyrir heimboðið þá sýndi Logi samlöndum sína litla gestrisni og setti 28 stig í "grillið" á þeim eins og sagt er. Solna vann leikinn með minnsta mun 78-77.
Logi lék gríðarlega vel á síðustu metrum leiksins og setti niður meðal annars 15 stig af þeim 22 stigum sem liðið skoraði í fjórða leikhluta og þar á meðal úrslitakörfuna sem skildi liðin tvö að. Pavel Ermolinski átti svo lokaskot leiksins en það geigaði og því fögnuðu Solna sigri.
Íslendingarnir voru fyrirferðamiklir þetta kvöldið í Stokkhólmi en Jakob Sigurðarson skoraði 21 stig fyrir Sundsvall og Hlynur Bæringsson setti 18 stig og tók 10 fráköst. Pavel daðraði svo við þrennuna góðu eins og honum einum er lagið með 11 stig , 9 fráköst og 7 stoðsendingar.