Logi Gunnarsson og félagar í franska NM1 liðinu Angers höfðu í gær öruggan 85-50 sigur á St. Chamond. Logi var ekki í byrjunarliðinu en skoraði engu síður 12 stig í leiknum.
Logi lék í 27 mínútur komandi af bekknum með 12 stig eins og áður segir. Hann var einnig með 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Eftir helgina er Angers í 11. sæti deildarinnar með 5 sigra og 7 tapleiki.
Logi er svo væntanlegur til Íslands yfir hátíðarnar og mun m.a. leika í Ljónagryfjunni föstudagskvöldið 21. desember næstkomandi en þá fer fram ágóðaleikur þar sem meistaraflokkur félagsins tekur á móti úrvalsliði Njarðvíkinga þar sem allur ágóði mun renna til Líknarsjóðs Njarðvíkurkirkna.