Haukar lögðu Tindastól í Ólafssal í kvöld í lokaleik 14. umferðar Bónus deildar karla, 100-99.
Með sigrinum jafna Haukar lið Hattar að stigum í 11. til 12. sæti deildarinnar. Bæði lið eru með 8 stig, einum siguleik fyrir neðan Álftanes sem er í 10. sætinu. Tindastóll er hinsvegar áfram í 2. sæti deildarinnar með 20 stig, einum sigurleik fyrir neðan Stjörnuna sem er í efsta sætinu og einum sigurleik fyrir ofan Njarðvík sem er í 3. sætinu.
Eftir nokkuð jafnræði liðanna á upphafsmínútum leiksins taka heimamenn í Haukum stjórnina á leiknum og leiða með fimm stigum að fyrsta fjórðung loknum, 29-24. Í öðrum fjórðungnum svara Stólarnir því ágætlega, en missa heimamenn aftur framúr fyrir lok fyrri hálfleiksins, 56-52.
Haukar ná svo að halda forystu sinni vel inn í seinni hálfleikinn og eru enn körfu á undan fyrir lokaleikhlutann, 79-77. Í þeim fjórða setja Stólarnir svo fótinn á bensíngjöfina og ná að snúa taflinu sér í vil. Munurinn sex stig þegar um sex mínútur eru til leiksloka, 84-90. Á lokakaflanum ná Haukarnir svo enn einusinni að vera á undan og leiða þeir með fjórum stigum þegar mínúta er eftir, 98-94.
Lokakafli leiksins var svo æsispennandi. Stólarnir fengu tækifæri til þess að komast yfir á lokasekúndunum, en allt kom fyrir ekki. Haukar vinna leikinn að lokum með minnsta mun mögulegum, 100-99.
Atkvæðamestir fyrir Hauka í kvöld voru De’sean Parsons með 24 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og Seppe D’espallier með 16 stig og 10 fráköst.
Fyrir Tindastól var Dedrick Basile atkvæðamestur með 24 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Honum næstur var Giannis Agravanis með 24 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.