Haukar kjöldrógu granna sína í Stjörnunni á Ásgarði í kvöld í 3. umferð Bónus deildar kvenna, 58-103. Það sem af er tímabili hafa Haukar unnið alla þrjá leiki sína á meðan að Stjarnan hefur unnið einn og tapað tveimur.
Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins betur og leiddu með 17 stigum eftir fyrsta leikhluta, 11-28. Undir lok fyrri hálfleiksins bæta þær svo enn í og eru gestirnir með 25 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-55.
Í upphafi seinni hálfleiks halda Haukar svo áfram að bæta við forskot sitt og er leikurinn nánast búinn fyrir lokaleikhlutann, 41-75. Gestirnir halda fætinum svo á bensíngjöfinni og klára leikinn að lokum með 45 stiga sigur, 58-103.
Atkvæðamestar fyrir heimakonur í leiknum voru Denia Davis Stewart með 5 stig, 9 fráköst og Fanney María Freysdóttir með 14 stig.
Fyrir Hauka var Diamond Battles atkvæðamest með 21 stig og 6 fráköst. Henni næst var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 20 stig og 4 stoðsendingar.
Stjarnan á leik næst komandi þriðjudag 22. október gegn Aþenu í Austurbergi, en Haukar leika degi seinna miðvikudag 23. október gegn Njarðvík heima í Ólafssal.
Myndasafn (væntanlegt)