Grindavík gerði sér lítið fyrir og stal fyrsta leik einvígis síns gegn deildarmeisturum Hauka í Ólafssal í kvöld í átta liða úrslitum Bónus deildar kvenna, 86-91.
Sigur Grindavíkur væntanlega komið nokkuð á óvart, þar sem þær enduðu í 8. sæti Bónus deildarinnar og voru ekki öruggar inn í úrslitakeppnina fyrr en eftir lokaleik deildarinnar.
Leikur kvöldsins var gífurlega spennandi en kaflaskiptur. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Grindavík með þremur stigum, 22-25. Undir lok fyrri hálfleiksins eru heimakonur þó með ágætis tök á leiknum, en eru aðeins stigi á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-44.
Í seinni hálfleiknum eru Haukar svo skrefinu á undan í upphafi og fara þær mest með forystu sína í sex stig í þriðja leikhlutanum og tíu stig í þeim fjórða. Undir lokin nær Grindavík þó að loka gatinu og eru þær í raun gífurlega óheppnar að ná ekki að klára leikinn í venjulegum leiktíma, en klukkan rennur út í stöðunni 80-80 og því þarf að framlengja.
Í framlengingunni heldur Grindavík áhlaupi sínu nokkuð til streitu og uppskera þær að lokum nokkuð (miðað við leikinn í heild) öruggan fimm stiga sigur, 86-91.
Nokkuð áhyggjuefni er þó fyrir Grindavík að lykilleikmaður þeirra Hulda Björk Ólafsdóttir virtist meiðast ill á hnéi í upphafi leiks. Þurfti að bera hana sárþjáða af velli og tók hún ekki frekari þátt.
Atkvæðamestar í liði Hauka í kvöld voru Lore Devos með 28 stig, 11 fráköst, 7 stoðsendingar og Þóra Kristín Jónsdóttir með 21 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar.
Fyrir Grindavík var Isabella Ósk Sigurðardóttir atkvæðamest með 19 stig og 14 fráköst. Við það bætti Daisha Bradford 26 stigum, 11 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram, en næst leika liðin komandi föstudag 4. apríl á heimavelli Grindavíkur í Smáranum.