Undir 18 ára drengjalið Íslands lauk riðlakeppni Evrópumótsins í Skopje í gær með fræknum sigri gegn Ungverjalandi. Í heild sigraði liðið því þrjá leiki og tapaði tveimur í riðlinum.
Sú niðurstaða var hinsvegar ekki nóg fyrir Ísland til þess að komast í átta liða úrslit mótsins, þar sem aðeins tvö efstu liðin úr riðlunum fjórum komust áfram í þann hluta keppninnar. Eins og sjá má hér fyrir neðan var Ísland þó ekki langt frá því, en aðeins er það stigatala þeirra gagnvart Póllandi og Ungverjalandi sem heldur þeim í 4. sætinu, þar sem liðið vann jafn marga leiki.
Ísland mun því leika um sæti 9 til 16 á mótinu, en í gærkvöld kom það í ljós að fyrsta viðureign þeirra í því umspili yrði gegn Slóvakíu kl. 11:30 að íslenskum tíma á morgun. Líkt og með aðra leiki Evrópumóta á vegum FIBA verður leikurinn í fríu beinu vefstreymi, en það verður hægt að nálgast fyrir leik hér.