Njarðvík sigraði Stjörnuna í fyrsta leik 8 liða umferðar úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum í Ljónagryfjunni með 88 gegn 82 stigum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 73-73, en þá hafði Stjarnan á einhvern ótrúlegan hátt náð því sem þeir eru að verða hvað þekktastir fyrir, að snúa tafli sér í vil og jafna leikinn og því þurfti að grípa til framlengingar. Njarðvíkingar áttu svo aftur lungann af yfirvinnunni og uppskáru því þennan mikilvæga sigur.
Fyrri hálfleikur var mikil skemmtun. Þarna voru mætt á svæðið þau tvö lið sem höfðu lent næst hvoru öðru í (annars frekar jafnri) deildinni þetta tímabilið og því oftar en ekki gert í skó undanfarna daga í fjölmiðlum að sería þessara liða væri með öllu óútreiknanleg. Stjarnan virtist (með herkjum) þó vera skrefinu á undan í fyrri hálfleiknum. Kláruðu fyrsta leikhlutann með 6 stiga forystu (18-24), sem þeir náðu svo að bæta við 1 stigi í öðrum (38-45) áður en liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Atkvæðamestir heimamanna í hálfleik voru þeir Stefan Bonneau (13 stig / 4 stoðsendingar) og Mirko Stefán (7 stig / 10 fráköst) á meðan að fyrir gestina voru það Jeremy Atkinson (12 stig / 4 fráköst) og Dagur Kár Jónsson (13 stig) sem drógu vagninn.
Mikið var um spretti hvors liðs fyrir sig í þessum fyrri hálfleik og þó Stjarnan hafi vissulega verðskuldað þau 7 stig sem hún átti á Njarðvík. Þá eins og leikurinn hafði spilast fram að því, var það með öllu öruggt að Njarðvík átti bara eftir að taka næsta sprett.
Sem þeir og gerðu beint eftir hlé. Nema hvað að í þetta skiptið gáfu þeir Stjörnumönnum enga möguleika á að svara fyrir sig. Lok lok læs og allt í stáli. Gestirnir fengu vart að líta í átt körfunnar allan leikhlutann, á meðan að hinumegin á vellinum náðu grænir að gera það sama og þeir höfðu gert fram að þessu í leiknum. Þriðji leikhlutinn fór í heildina 18-6 og var Njarðvík því búnir að ekki bara núll stilla fyrri hálfleikinn enn frekar og fóru með alveg heilan helling af svægi (+ 5 stig) inn í lokaleikhluta leiksins.
Fjórði leikhlutinn var svo aftur líkari fyrri hálfleiknum. Stjarnan tók sér 2 mínútur til þess að jafna leikinn aftur áður en hann var svo í járnum allt þangað til endans. Njarðvík, þó, þegar rétt um 8 sekúndur voru til loka leiks voru Njarðvíkingar 4 stigum yfir og Stjarnan fær eina sókn til þess að koma í veg fyrir ósigur.
Dagur Kár geysist þá upp völlinn með boltann og þrátt fyrir að vera kannski ekki gamall í árum eða maður með mörg svona augnablik undir beltinu, fer upp í þriggja stiga skot og sækir (í því – réttilega) villu á leikmann Njarðvíkur, Maciek Baginski. Rétt rúmar 3 skúndur eftir þar og Stjarnan enn 4 stigum undir en Dagur á leiðinni á gjafalínuna í þrjú víti. Eftir smá liðsfund tekur Dagur sín víti nema hvað hann setur fyrstu tvö niður og geigar svo viljandi á því þriðja. Jón Orri tekur frákastið og fer upp í vandræðalegt sniðskot þar sem að boltinn dansar á hringnum vel og lengi áður en hann fer niður og tryggir Stjörnunni framlengingu.
Í framlengingunni sigldi Njarðvík svo aftur snögglega í nokkurra stiga forystu sem þeir svo héldu (að manni fannst) svona frekar áreynslulaust til loka í 6 stiga sigur (88-82).
Njarðvík ríghalda því í heimaleikjaréttinn sem stendur og halda með einn sigur til Ásgarðs komandi sunnudag í leik 2 gegn Stjörnunni. Þar sem að heimamenn hafa verið skeinuhættir þennan veturinn (aðeins tapað gegn Tindastól og KR þar)
Lykilmaður leiksins var leikmaður Njarðvíkur, Stefan Bonneau, en hann skoraði 30 stig (8/19 af vellinum) og tók 7 fráköst á þeim tæpu 45 mínútum sem hann spilaði í leik kvöldsins.
Punktar:
-
Liðin skiptust í 8 skipti á forystu.
-
Njarðvík skutu boltanum í 26 skipti fyrir utan þriggja stiga línuna á móti 11 tilrauna Stjörnunnar.
-
Í heildina reyndi Njarðvík 42 þriggja stiga skot (24% nýting) á móti 22 tilrauna Stjörnunnar (18% nýting)
-
Njarðvík gaf 20 stoðsendingar á móti 14 hjá Stjörnunni.
-
Liðin töpuðu hvort um sig bæði 16 boltum.
-
Stjarnan (32/79 – 41%) var með betri skotnýtingu af vellinum en Njarðvík (28/74 – 38%)
-
Stjarnan notaði (9) fleiri leikmenn en Njarðvík (8)
-
Jón Orri Kristjánsson var aðeins, þegar hann tryggði Stjörnunni framlenginguna, að skora sína aðra körfu í leiknum.
-
Stuðningsmenn Njarðvíkur mættu (margir) í réttum litum og studdu ötullega við sína menn, á meðan að Silfurskeiðin (stuðningssveit Stjörnunnar) mætti ekki til leiks.
-
Húsplötusnúður Ljónagryfjunnar spilaði “Rock & Roll part 2” (Gary Glitter) ekki einu sinni þetta kvöldið og ku það vera í fyrsta skiptið sem undirritaður verður (þrátt fyrir ófáar ferðirnar þangað í gegnum tíðina) þess vitni að þessi fornfrægi þjóðsöngur grænklæddra fái ekki að óma.
-
Annar leikur þessa einvígis fer fram sunnudaginn næstkomandi (22.03) á heimavelli Stjörnunnar að Ásgarði í Garðabæ klukkan 19:15.
Myndasafn
Tölfræði
Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur