spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLitli bróðir vann í framlengdum leik - Álftanes hafði betur gegn Stjörnunni...

Litli bróðir vann í framlengdum leik – Álftanes hafði betur gegn Stjörnunni í grannaslagnum

Álftanes sótti sigur í framlengdum leik í Umhyggjuhöllinni gegn heimamönnum Stjörnunnar í lokaviðureign níundu umferðar Subwaydeildar karla í kvöld. Leikurinn var í járnum allan tímann og bæði lið börðust af hörku í þessum grannaslag en að lokum fór hann 84-90 fyrir Álftanesi.

Spekingar og spámenn höfðu sagt að þetta yrði góður leikur, enda grannaslagur í Blómabænum þar sem bæði íþróttalið heyra undir sveitarfélagið Garðabæ. „Stóri bróðir“, þ.e.a.s. Stjarnan, leiddi bróðurpartinn af leiknum en „litli bróðirinn“ Álftanes hafði betur að lokum. Þetta var leikur varna þar sem bæði lið mættu með góða varnarmenn, mikla baráttu og vildu halda stigaskori andstæðinga sinni niðri. Það hafðist og liðin skoruðu aðeins 75 stig hvort um sig fyrstu 40 mínútur leiksins.

Í framlengingunni hafði Álftanes aðeins meira á tankinum og gátu á lokametrunum tryggt sér sigur með því að hafa fleiri af sínum aðalmönnum á vellinum. Álftnesingar kláruðu framlengda leikhlutann örugglega og unnu að lokum sex stiga sigur eins og áður sagði, 84-90.

Af hverju vann Álftanes?

Stjarnan var dugleg að leiða í stigaskori mest allan leikinn en Álftnesingar voru aldrei langt undan. Þeir héldu í við Stjörnumenn og mesti munurinn á liðunum var aldrei meira en 9 stig. Þrátt fyrir að Álftnes spilaði aðeins á sjö leikmönnum í leiknum þá héldu þeir sér að mestu úr villuvandræðum og gátu lokað leiknum í framlengingunni með sinn besta mannskap á vellinum.

Bestu menn vallarins

Douglas Wilson var illviðráðanlegur hjá Álftanesi með 19 stig, 14 fráköst og 6 sóttar villur. Stigahæstur hjá gestunum var hins vegar nýfenginn leikmaður þeirra frá Haukum, finnski leikmaðurinn Ville Tahvanainen, sem setti 21 stig í leiknum, þ.a. 5 þrista í 8 þriggja stiga tilraunum (62% þriggja stiga nýting) og var mjög beittur í kvöld. Þegar Stjarnan hafði ágæta forystu í fjórða leikhlutanum þurrkaði Finninn muninn út nánast eins síns liðs með nokkrum geggjuðum þriggja stiga körfum.

Hjá heimamönnum í Stjörnunni var Ægir Þór Steinarsson framlagshæstur með 18 stig, sex fráköst, átta stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Hann tók völdin inn á milli í leiknum en hann gat ekki borið liðið sitt óstuddur að þessu sinni. James Ellisor (20 stig) og Kevin Kone (10 stig, 15 fráköst) reyndu að aðstoða eftir bestu getu en verkefnið reyndist þeim og liðsmönnum þeirra of stórt.

Tölfræði sem vakti athygli

Kjartani Atla, þjálfara Álftanes, fannst augljóslega að þessi leikur væri stór enda fengu aðeins sjö leikmenn hans að sjá völlinn, sem er eitthvað sem að maður sér oft í úrslitaviðureignum að vori, ekki fyrir jól. Fimm leikmenn Álftanes spiluðu meira en 35 mínútur í leiknum og hinir tveir yfir 15 mínútur hvor.

Sóknarfráköstin hjá Stjörnunni hefðu getað verið stór þáttur í sigri þeirra og þeir unnu þá baráttu (18 sóknarfráköst á móti 11 hjá Álftanesi) ásamt því að þeir skoruðu sex fleiri stig en andstæðingarnir úr sóknum eftir sóknarfráköst. Það dugði þó ekki til.

Hvað gekk illa?

Framan af þá voru Stjörnumenn duglegir að fá ekki dæmdar á sig villur en eftir því sem leið á leikinn fengu lykilleikmenn nokkrar illa ígrundaðar villur. Finnskur leikmaður Stjörnunnar, Antti Kanervo, fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir að öskra í eyrað á Dúa Þóri Jónssyni eftir að hafa smellt þristi í andlitið á honum og Kevin Kone, stór maður Stjörnunnar, fékk dæmda á sig fjórðu villuna þegar hann hrinti Dino Stipcic harkalega frá sér eftir stimpingar í frákastabaráttu. Þegar komið var í framlengingu þá voru sumir leikmenn komnir á seinasta séns, þ.e.a.s. með aðeins eina villu eftir af sínum fimm. Þetta var engin stór munur, en í naumum leik geta villur hér og þar skipt miklu máli. Kevin Kone villaði út þegar ein og hálf mínúta lifði leiks og það reyndist helvíti dýrkeypt fyrir Stjörnumenn.

Hvað næst?

Álftnesingar eru núna í þriðja sæti deildarinnar með 6 sigra í 9 leikjum en Stjarnan er í sjöunda sætinu með 5 sigra og 4 töp.

Stjarnan mætir næst Grindavík á meðan að Álftanes tekur á móti nágrönnum sínum, Haukum, á heimavelli sínum í Forsetahöllinni.

Fréttir
- Auglýsing -