Spár formanna, þjálfara og fyrirliða liða og spá fjölmiðla fyrir Subway deild karla voru opinberaðar í hádeginu í dag á árlegum kynningarfundi deildarinnar. Í spá félaga er það Keflavík sem spáð er fyrsta sætinu og Tindastóli öðru. ÍR og Hetti er í báðum tilvikum spáð falli úr deildinni og samkvæmt niðurstöðum verða það Grindavík, KR og Haukar sem berjast um síðasta sæti úrslitakeppninnar.
Hérna má sjá spárnar fyrir Subway deild karla 2022-23
Í heild voru það 36 aðilar sem tóku þátt í spánni fyrir hönd félaga, en þar eru það leikmenn, þjálfarar og forráðamenn sem hafa atkvæðisrétt. Eitthvað var um að þessir aðilar væru nokkuð á skjön við meðaltal liðanna, þar sem að einhver þeirra setti sem dæmi ÍR og KR í efsta sæti, annar var með Tindastól í því neðsta og þá fengu Haukar einnig atkvæði í efstu sæti deildarinnar þrátt fyrir að vera nýliðar í deildinni.
Hér fyrir neðan má sjá spána uppfærða af körfuboltaspekingnum Björgvini Inga, en þar er hann búinn að taka út þessi atkvæði sem féllu alveg á skjön við meginstrauminn. Þar má sjá að sjálf spáin breytist lítið. Keflavík verður áfram í efsta sætinu og bæði Höttur og ÍR falla.