spot_img
HomeFréttirLisa Karcic tekur við Adamshick í Keflavík

Lisa Karcic tekur við Adamshick í Keflavík

 
Síðasti sólarhringurinn eða svo hefur verið viðburðaríkur hjá Jóni Halldóri Eðvaldssyni þjálfara kvennaliðs Keflavíkur í Iceland Express deildinni. Í gær fékkst staðfest að Jacquline Adamshick myndi ekki leika meira með Keflavík á tímabilinu sökum beinbrots í rist. Nú hefur nokkurn veginn allt gengið upp og nýr leikmaður mættur til landsins í lið Keflavíkurkvenna en sú heitir Lisa Karic og var að klára leiktímabil í Finnlandi.
,,Karcic er komin til landsins og verður með í kvöld. Karic kemur frá vinabæ Keflavíkur í Finnlandi sem heitir Kerava en þar var hún að leika sem atvinnumaður,“ sagði Jón Halldór í samtali við Karfan.is. Karcic er vinkona Adamshick og hafði hún hönd í bagga með að fá fyrrum liðsfélaga sinn úr Villanovaskólanum til landsins til þess að fylla sitt skarð hjá Keflavík.
 
,,Hún var með rúm 18 stig og 13 fráköst í efstu deild í Finnlandi og lék í Puerto Rico á síðasta tímabili og stóð sig vel þar,“ sagði Jón Halldór en Karcic verður í búning í kvöld þegar Keflavík tekur á móti KR í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna.
 
Hlutirnir gerðust hratt í gær þar sem Karcic samdi við Keflavík, hélt rakleiðis út á flugvöll áleiðis til Kaupmannahafnar og var mætt til landsins eftir miðnætti í nótt. ,,Hún hafði tvær klukkustundir og 25 mínútur til að ganga frá sínum málum í Finnlandi og koma sér út á flugvöll,“ sagði Jón Halldór og verður fróðlegt að sjá hvort Keflvíkingar verði jafn heppnir með erlendan leikmann eins og KR sem fengu bombu í Melissu Jeltema sem leikið hefur einn leik með KR síðan Chazny Morris meiddist, Jeltema stimplaði sig rækilega inn og fór fyrir KR í sigri liðsins gegn Keflavík í öðrum undanúrslitaleik liðanna.
 
Mynd/ Lisa Karcic var að ljúka tímabili í Finnlandi og tekur nú við af vinkonu sinni Adamshick í Keflavíkurliðinu.
 
Fréttir
- Auglýsing -