spot_img
HomeFréttirLífið eftir EM: Ragnar Nathanaelsson

Lífið eftir EM: Ragnar Nathanaelsson

 

Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.

 

Nafn: Ragnar Á. Nathanaelsson

Aldur: 24 ára

Fjöldi landsleikja: 35

Félagslið: Þór Þorlákshöfn

 

Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni?

Já klárlega. Fengum ekki bara að halda Smáþjóðleikana hérna heima heldur fengum við líka Hollenska landsliðið hingað heim í æfingaleiki. Áður en við fórum til Berlínar tókum við svo þátt í tveimur æfingamótum í Eistlandi og Póllandi, þannig þetta voru töluvert fleiri leikir sem við fengum í undirbúning.

Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð?

Get nú ekki sagt að álagið hafi verið neitt rosalegt þótt það hafi oftast verið æft tvisvar á dag, enda ungur og í hörku formi. Svo vorum við líka með heilan hóp af fagmönnum að sjá um okkur.

 

Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?

Já heldur betur!! Strax frá upphafi þegar það varð ljóst að við værum að fara á EM fundum við fyrir áhuga og stuðningi frá öllum, bæði þeim sem eru í kringum körfuna og þeim sem eru ekki jafn mikið í þessu.

 

Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?

Ég persónulega get ekki sagt að það hafi verið mikil pressa sem fylgdi þessu. Miklu frekar ánægja að fá að taka þátt þessu öllu saman.                                                                                                          

 

En að umgangast stórstjörnunar, hvernig var það?

Að ræða við Dirk um morgunmatinn, mann sem maður er búinn að vera að horfa á og dást að síðan maður byrjaði að fylgjast með NBA, gagnrýna hádegismatinn með Pau og ljúka síðan kvöldinu í pastaveilsu með Gallanari er eitt það mesta rugl sem ég hef upplifað. Er ennþá að komast yfir það að þetta séu bara venjulegir menn eins og ég og þú. 

 

Fannst þér meira stress fylgja undankepninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?

Aldrei neitt stress. Við, sem íslendingar, mætum bara í leiki og ætlum að berjast og skemmta okkur til leiksloka og sjá svo hvernig staðan er. Okkur langaði samt að sýna að við værum ekki aðeins sáttir með að hafa komist á EM, heldur líka að við gætum spilað á móti þessum stóru þjóðum.

 

Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?

Maður er auðvitað ennþá að springa úr stolti eftir að stúkan söng Ferðalok eftir síðasta leikinn. Svo er maður aðallega þakklátur fyrir að fá að vera partur af þessu.

 

Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?

Nei get nú ekki sagt að þetta hafa breytt neinu, nema kannski ýtt undir þau og veitt manni meiri innblástur.

 

Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?

Eins gott og það var að komast úr hótellífinu eftir þessar 4 vikur sem maður bjó á hótelinu í undirbúningnum og mótinu sjálfu, þá langar mann oft að fara þangað aftur.  

 

Hvað tekur við núna?

Klára tímabilið hjá Þór og reyna að halda mínu sæti í komandi verkefnum í landsliðinu.

 

Stefnir þú á EuroBasket 2017?

Það gerum við ÖLL!

Fréttir
- Auglýsing -