Heiðrún Kristmundsdóttir hefur ákveðið að taka lokaslaginn á þessu tímabili með Stjörnunni í Garðabæ. Áður hafði hún verið skráð til leiks með liði Hamars, en þó aðeins náð að spila tvo leiki fyrir þær áður en hún hélt aftur vestur um haf í skóla. Í þessum tveimur leikjum sem að hún spilaði fyrir Hamar skilaði hún tæpum 12 stigum, 10 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali. Því mikill liðsstyrkur fyrir Stjörnuna, sem er sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 6 stig, aðeins 4 stigum (2 leikjum) frá sæti í úrslitakeppninni.
Stjarnan er einnig búin að gera samning við nýjan erlendan leikmann, en þær hafa verið án erlends leikmanns frá áramótum. Allt frá því að samningnum við Chelsie Schweers var sagt upp og hún svo gekk yfir lækinn til Hauka í Hafnarfirði. Sú nýja heitir Adrienne Godbold og er af bandarísku bergi brotin. 24 ára, 180cm bakvörður sem spilaði síðast fyrir Freiburg í Þýskalandi.
Báðar munu leika sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna kl.19:15 í kvöld gegn Keflavík.