Stjörnumenn og ÍR-ingar hafa marga hildina háð undanfarin ár og komið að enn einni í kvöld í Ásgarði. Stjarnan situr í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig og gestirnir þar fyrir neðan með 10 stig. ÍR gat því haft sætaskipti við gestgjafana með sigri og við skulum sjá hvort það muni gerast…
Spádómskúlan: Í kúlunni birtist mynd af fótalúnum ferðalangi er liggur í gestarekkju, matar og voða er þörf eftir að hafa um fjall farið. Þetta merkir auðvitað að gestirnir munu, einkum þeir sem eldri eru, ekki hafa orku og fótabúnað til að standa í Stjörnumönnum. 104-88 verða lokatölur.
Byrjunarlið:
Stjarnan: Ægir, Addú, Gunnar, Alex, Hlynur
ÍR: Evan, Benóný, Pryor, Sigvaldi, Danero
Gangur leiksins
Bæði lið mættu með misnýja menn í sínum röðum. ÍR-ingar höfðu limþreifarann ljúfa Zvonko Buljan til taks og Stjörnumenn höfðu endurheimt Tómas Þórð erlendis frá. Það var hins vegar Hlynur Bærings sem kom stigaskori af stað í leiknum og setti síðar fyrsta þrist leiksins – staðan 7-4 eftir hann. ÍR-ingar voru í svæðisvörn mestallan fyrri hálfleikinn og voru ljónheppnir að heimamenn voru frekar kaldir fyrir utan. Þrátt fyrir það tók Borche leikhlé eftir um fjögurra mínútna leik í stöðunni 12-4 enda leikur liðsins afskaplega ósannfærandi. Til að bæta gráu ofan á svart smellti besti DJ íþróttahúsanna PanterA á fóninn til að blása sínum mönnum enn frekar byr í seglin. Eitthvað virðist PanterA heyrast í Breiðholtinu því áhrifin urðu öfug og Buljan jafnaði leikinn í 14-14 þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta. Heimamenn girtu sig þá í brók, Dúi kom sterkur inn af bekknum að vanda og heimamenn leiddu 23-16 eftir einn.
Heimamenn hótuðu að stinga gestina af í upphafi annars leikhluta. ÍR-ingar voru ansi klaufalegir á köflum, töpuðu t.a.m. boltanum eftir innkast undir eigin körfu og Buljan klúðraði hraðaupphlaupi á einhvern óskiljanlegan hátt! Borche tók leikhlé í stöðunni 33-22 og það skilaði sínu. Vörnin skánaði umtalsvert en Everage var frekar einmana sóknarmegin. Enn voru gestirnir í svæðisvörn og enn nýttu heimamenn sér það ekkert sérstaklega vel þar til meistari Ægir nennti ekki þessu þrugli lengur og setti tvo í röð. Það var helsta ástæðan fyrir 46-39 forskoti Stjörnunnar í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu álíka illa í þriðja leikhluta og í hinum tveimur. Heimamenn gerðu að sama skapi vel, mættu grimmir eftir hléið og hirtu ótal sóknarfráköst sem endar óhjákvæmilega með stigum. Stjarnan tók 15 sóknarfráköst á móti 7 hjá ÍR í kvöld. Gunnar Ólafs svínhitnaði og eftir tvær mínútur í seinni var hann kominn með 8 stig og staðan orðin 56-41! ÍR-ingar höfðu þarna skipt í maður á mann-vörn sem var ekki góð, ekki til að byrja með í það minnsta. Munurinn hékk í kringum 15 stigin allan leikhlutann og heimamenn leiddu 74-58 að honum loknum.
Fyrirliði ÍR hóf fjórða leikhluta með þristi og það voru kærkomin stig úr annarri átt en áður. Vörn gestanna, sennilega í bland við svolítinn klaufagang heimamanna, fór að ná einu og einu stoppi og Pryor setti stig hinumegin. Everage og Evan fylgdu í kjölfarið og Everage minnkaði muninn í 84-77 þegar tæpar 4 voru eftir af leiknum. Stjarnan gaf svo ÍR-ingum eitt stig í viðbót með tæknivillu og munurinn allt í einu bara 6 stig. Þarna hefur læðst í huga sumra Stjörnumanna sú hugsun að liðið ætli að klúðra þessum leik, kannski á svipaðan hátt og í Grindavík. Addú sagði hins vegar nei við því, smellti þristi í næstu sókn og koddinn aftur orðinn sæmilega þægilegur. Hlynur og Mirza sáu svo um áfyllingar í framhaldinu og ÍR-ingar náðu ekki að skapa spennandi lokamínútur fyrir ÍR-inga og hlutlausa áhorfendur. Lokatölur 95-87 og Arnar og Kúlan hjartanlega sammála um að þetta hafi verið óþarflega tæpt…
Menn leiksins
Stjörnuliðið allt fær þessa nafnbót og þannig vilja nú þjálfarar liða kannski helst alltaf hafa það. 9 leikmenn skoruðu og enginn var eitthvað sérstaklega áberandi í kvöld. Ef rýnt er í tölfræðina má þó telja það upp að meistari Ægir skilaði 15 stigum, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Það er ágætt.
Það var öllu neikvæðari mynd á gestunum, Pryor, Evan og Everage voru nánast þrír í liðinu fannst manni stundum, skoruðu 60 stig af 87 stigum liðsins í kvöld.
Kjarninn
ÍR-ingar hafa óárennilegan mannskap og Buljan á eftir að komast inn í þetta hjá þeim. Borche virðist enn eiga eftir að skapa betra lið úr þessum efnivið og það er mjög spennandi að sjá hvernig það mun ganga á næstu vikum og mánuðum! Borche er augljóslega ekki ánægður með varnarleikinn og sóknarleikurinn er of mikið einn á alla ef undirritaður hefur eitthvað vit á þessum málum…Fyrirliði þeirra, Sæþór Elmar, tók í það minnsta ágætlega í þær hugleiðingar í viðtali eftir leik.
Stjörnumenn áttu ekki stjörnuleik í kvöld og Arnar tók undir það í viðtali eftir leik. Nokkuð var um tapaða bolta og ÍR-ingar fengu talsvert af ódýrum stigum í kvöld. Auðvitað eiga Stjörnumenn líka eftir að styrkjast sem lið en þarna er samt kjarni sem hefur spilað allnokkuð mikið saman og það sást í kvöld og var kannski það sem skilaði stigunum í hús. Framhaldið er skuggalega spennandi og Arnar var svo elskulegur að draga undirritaðan örlítið niður á jörðina að leik loknum.
Myndasafn (Bára Dröfn)
Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson