New York Liberty skilaði New York borg sínum fyrsta meistaratitli í atvinnumannadeild í körfubolta í 44 ár í nótt þegar liðið lagði Minnesota Lynx að velli í framlengdum oddaleik um WNBA meistaratitilinn.
Úrslitaserían var æsispennandi en fjórir af fimm leikjum unnust með 5 stigum eða minna og tveir fóru í framlengingu.
Jonquel Jones fór fyrir Liberty í nótt með 17 stigum og var valin verðmætasti leikmaður úrslitaseríunnar. Breanna Stewart kom henni næst með 13 stigum og 15 fráköstum en stjarnan Sabrina Ionescu átti erfiðan dag, hitti einungis úr 1 af 19 skotum sínum og endaði með 5 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst.
Hjá Lynx var Napheesa Collier stigahæst með 22 stig en Kayla McBride átti einnig góðan dag og endaði með 21 stig.
New York borg átti síðast meistara í atvinnumannadeild í körfubolta árið 1980 þegar New York Stars unnu Women’s Professional Basketball League (WBL), fyrstu atvinnumannadeild kvenna í Bandaríkjunum. Þar á undan höfðu New York Nets, betur þekkt sem Brooklyn Nets í dag, og New York Knicks unnið fjóra titla í ABA og NBA deildunum á áttunda áratugnum.
Þetta var í sjötta skiptið sem Liberty komast í úrslit WNBA deildarinnar, en áður hafði liðið komist árin 1997, 1999, 2000, 2002 og 2023.