Flest lið eiga nú aðeins einn leik eftir í Lengjubikar karla en síðustu vikur hafa liðin í keppninni leikið afar þétt, bæði í Íslandsmóti og svo Lengjubikarnum. Línur eru farnar að skýrast töluvert og fjögur fræknu bíða.
A-riðill:
Þór Þorlákshöfn og KR eru efst í riðlinum með 8 stig. Þór hefur betur innbyrðis og til að KR komist áfram verða þeir að vinna næsta leik og Þór að tapa. Þór fær Skallagrím í heimsókn í næsta leik en KR tekur á móti ÍR. Það ræðst því ekki endanlega fyrr en í síðustu leikjum KR og Þórs hvort liðið fari í fjögur fræknu, KR mætir ÍR 27. nóvember og Þór mætir Skallagrím 28. nóvember. ÍR hefur 4 stig og Skallagrímur er án stiga á botninum og hvorugt lið á því möguleika á því að komast upp úr riðlinum.
B-riðill:
Grindvíkingar eru búnir að tryggja sér sigur í riðlinum, unnu alla fimm leiki sína til þessa og ,,mega“ tapa síðasta leiknum í riðlinum, þeir fara samt í fjögur fræknu. KFÍ hefur lagt Hauka í tvígang og Fjölni einu sinni og eru með 6 stig í 2. sæti, Haukar hafa 4 stig og Fjölnir á botni riðilsins án stiga.
C-riðill:
Eini þriggja liða riðill keppninnar, Tindastóll hefur lokið leik og komast ekki upp, eru í botnsætinu með 2 stig en Stjarnan og Snæfell hafa bæði fjögur stig og leika hreinan úrslitaleik um laust sæti í fjórum fræknu. Liðin mætast í Stykkishólmi 27. nóvember og hefur Snæfell betur innbyrðis með einu stigi eftir mikinn spennuslag í Ásgarði þar sem Ólafur Torfason tryggði Snæfell sigurinn á vítalínunni eftir að leiktíminn rann út.
D-riðill:
Njarðvík situr á toppi riðilsins með 10 stig, búnir að vinna alla fimm leiki sína og fast á hæla þeirra koma Keflvíkingar með 8 stig og því munu liðin leika hreinan úrslitaleik um laust sæti í fjórum fræknu. Njarðvíkingar unnu fyrri leikinn 90-77 í Ljónagryfjunni og því þurfa Keflvíkingar að minnsta kosti 14 stiga sigur til að hrinda Njarðvík út úr fjórum fræknu. Hamar er í 3. sæti með 2 stig og Valur á botninum án stiga. Njarðvík og Keflavík leika úrslitaleik um sætið í fjórum fræknu þann 28. nóvember í Toyota-höllinni.
Hér má svo glöggva sig nánar á fyrirkomulagi keppninnar:
Regla um keppnina:
Fyrirtækjabikarinn er riðlakeppni sem leikinn er í fjórum riðlum. Þátt taka þau 12 lið sem skipa úrvalsdeildina ásamt þeim liðum sem féllu úr úrvalsdeildinni tímabilið á undan. Liðið sem tapaði lokaúrslitum 1. deildar skipar 15. sætið.Það lið sem tapaði í undanúrslitum 1. deildar og var ofar í lokastöðu 1. deildar skipar 16 sætið.
Ákveði lið sem rétt á til þátttöku í Fyrirtækjabikarnum að taka ekki sæti sitt í keppninni skal mótanefnd bjóða því liði sem næst er í röðinni að taka sæti í keppninni. Skal það lið fara í neðsta styrkleikaflokk. Önnur lið færast til um styrkleikaflokk þannig að ef lið í 4. sæti tekur ekki þátt fer lið í 5. sæti í 1. styrkleikaflokk og svo framvegis.
Liðunum 16 er skipt í fjóra styrkleikaflokka. Dregið skal í 4 fjögurra liða riðla þannig að eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki skal leika í hverjum riðli. Leikið skal heima og að heiman. Keppnin lýkur með úrslitakeppni þar sem sigurvegarar hvers riðils leika.
Styrkleikaskipting:
1. styrkleikaflokkur: lið 1, 2, 3 og 4 sæti að lokinni deildarkeppni úrvalsdeildar tímabilið á undan.
2. styrkleikaflokkur: lið 5, 6, 7 og 8 sæti að lokinni deildarkeppni úrvalsdeildar tímabilið á undan.
3. styrkleikaflokkur: lið 9, 10, 11 og 12 sæti að lokinni deildarkeppni úrvalsdeildar tímabilið á undan. Liðið sem vinnur 1. deild skipar 11 sæti og liðið sem kemur upp í úrvalsdeild eftir úrslitakeppni 1. deildar skipar 12 sæti.
4. styrkleikaflokkur: Þau 4 lið sem leika í 1. deild karla. Þau eru liðin tvö sem féllu úr úrvalsdeild og þau tvö lið sem þátt tóku í úrslitakeppni 1. deildar árið á undan en töpuðu í úrslitakeppni deildarinnar.