Snæfellingar náðu fram hefndum líkt og Þorlákshafnar Þórsarar fyrir Lengjubikarhelgina síðustu, með öruggum sigri í Síkinu í kvöld 67-82. Leikurinn var þó jafn fram eftir fyrstu þremur fjórðungunum en í þeim síðasta settu Snæfellingar lok yfir körfuna hjá sér og unnu sér þannig inn þægilegan sigur og miða í 16 liða úrslitin.
Leikurinn í kvöld var nokkuð kaflaskiptur, Snæfellingar mættu lítið eitt skipulagðari til leiks og voru markvissari í sínum aðgerðum í sóknarleiknum í fyrsta leikhluta eins og einhver klisjukóngur sem fær að tjá sig um fótbolta í sjónvarpinu myndi orða það. Engu að síður þá á það við núna og því leiddu Snæfellingar eftir fyrsta leikhluta 16-21.
Í öðrum leikhluta tóku heimamenn við sér og þá aðalega vegna þess að íslenski póstmaðurinn Þröstur Leó kom inn á í lok fyrsta leikhluta í nákvæmlega sama gír og á móti Snæfellingum um síðustu helgi. Raðaði niður bæði þristum og fingurrúllum og fljótlega voru Skagfirðingar bæði búnir að jafna og fara fram úr. Í hálfleik var staðan 36-34 og sætisbeltaljósin komin á.
Í úrslitaleik Lengjubikarsins fyrir helgi þá var það þriðji fjórðungurinn sem úrslitin réðust þegar Tindastólsmenn mættu með kveikt á öllum sílenderum og jörðuðu Snæfellinga á frekar skömmum tíma. Því miður fyrir Tindastólsstrákana þá var það sama ekki á boðstólnum í kvöld því þriðji leikhlutinn var jafn á öllum tölum, og einhverjir voru farnir að finna lykt af framlengingum og flautukörfum.
Sú var hins vegar ekki raunin því í loka fjórðungnum datt botninn alveg úr sóknarleik heimamanna og þegar verst var hefðu þeir ekki getað keypt körfu. Á meðan gátu Snæfellingarnir haft það náðugt og forskotið jókst reglulega á hálfrar mínútu fresti. Niðurstaðan, einungis 9 stig skoruð af heimamönnum síðustu 10 mínúturnar og draumurinn um aðra tilraun í Laugardalshöllinni úti hjá Tindastólsmönnum.
Liðsheildin hjá Snæfellingum var sterk í þessum leik og skiptu þeir stigunum nokkuð bróðurlega á milli sín, en mikið munaði um heitar hendar af bekknum í lokafjórðungnum þegar Pálmi Sigurgeirs og Sigurður Þorvaldsson settu niður nokkur skot á vondum tíma fyrir Stólanna. Athyglisverð var barátta leikstjórnandanna Jay Threatt og Drew Gibsons en að þessu sinni var hún í formi varnarleiks því að Jay Threatt náði einungis að skora 7 stig og Gibson bætti um betur því hann skoraði jafn mörg stig og amma sín í leiknum, semsagt 0 stig í ellefu skotum. Ekki alveg nógu gott og líklega lykillinn af sigri Snæfellinga í kvöld. Hjá Tindastól var Þröstur með 26 stig og Valentine með sína “sollid” 21/10 frammistöðu. Þá hélt Ingvi Ingvarsson áfram að sýna lipra takta, sérstaklega í hraðaupphlaupunum.
En bikarmeistararnir fallnir úr leik í 32. liða og fá því nógan tíma til að einbeita sér að því að fara að klifra upp töfluna í Íslandsmótinu.
Mynd/ Hjalti Árnason – Helgi Rafn og Jón Ólafur í baráttunni í Skagafirði.
Umfjöllun/ Björn Ingi Óskarsson