spot_img
HomeFréttirLeiknismenn réttu kútinn rétt fyrir jól

Leiknismenn réttu kútinn rétt fyrir jól

Um helgina mættust 2. deildar liðin Leiknir og Stjarnan b í fyrsta sinn á þessu tímabili í Kennaraháskólanum. Fyrir leikinn höfðu Stjörnumenn unnið fimm leiki og einungis tapað tveimur á meðan að Leiknismenn höfðu farið aðeins verr af stað, en þeir höfðu tapað fjórum leikjum og aðeins unnið tvo. Leiknir hafði þó sigur á sínum heimavelli að þessu sinni með þolinmæði og reynslu undir lok leiksins.
 

Leiknir hóf leik á því að þriggja stiga sérfræðingur liðsins, Gunnar Gunnarsson, setti þrist frá nákvæmlega þeim stað þar sem hann hafði lofað undirrituðum að hann myndi setja skotið. Stjörnumenn létu það þó ekki á sig fá og með góðri hreyfingu í sókninni voru þeir fljótir að komast yfir og settu alls kyns körfur bæði undir körfunni og fyrir aftan þriggja stiga línuna. Leiknismenn, sem voru aðeins eldri upp til hópa en andstæðingar sínir, áttu í fyrstu erfitt með að hemja unga leikmenn Garðabæjar og voru allan fyrsta leikhluta að elta gestina í stigaskori. Þeir náðu þó að jafna stöðuna á seinustu mínútu fyrsta fjórðungs og liðin skildu jöfn að stigum eftir að 10 mínútur voru liðnar af leiknum, 26-26.

Annar leikhlutinn var svipaður þeim fyrsta að því leyti að hraðar sóknir Stjörnunnar b komu þeim yfir og það eina sem að hélt heimamönnum inni í leiknum var þolinmæði og góðar sendingar sem brutu pressuvörn gestanna trekk í trekk og skiluðu auðveldum körfum. Gestirnir leiddu samt þegar fyrri hálfleiknum lauk með fimm stigum, 43-48.

Liðin héldu áfram að skiptast á körfum í upphafi þriðja leikhluta en þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik varð vendipunktur í leiknum þegar einn leikmaður Stjörnunnar b fékk snemmbúna sturtuferð við sína aðra óíþróttamannslegu villu. Leiknismenn fóru þá að finna taktinn betur og gerðu Stjörnunni b erfitt fyrir með betri sóknum og vönduðum bolta. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 68-70 og Leiknir voru komnir á skrið.

Fjórði leikhlutinn hófst með sterkum leik kraftframherja Leiknis, Kristni Lofti Einarssyni, sem sótti 6 auðveld stig á fjórum mínútum og Stjörnustrákarnir höfðu fá svör við inni-út leik heimamanna. Leiknismenn voru skynsamir í sóknum sínum og vörnin fór loks að smella hjá þeim. Nokkrar vel valdar körfur frá Helga Ingasyni, Gunnari Gunnarssyni og fleirum undir lokin sigldu 11 stiga sigri Leiknis í höfn, 95-84.
 

Þáttaskil

Þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var Viktori Marinó Alexanderssyni, leikmanni Stjörnunnar b, vikið af velli eftir aðra óíþróttamannslega villu sína. Þetta hefði kannski ekki komið að sök nema fyrir þær sakir að Stjörnumenn mættu aðeins með 6 leikmenn til leiks og seinustu 15 mínúturnar spiluðu Stjörnustrákarnir á 5 liðsmönnum. Þó að þeir væru allir ungir og sprækir þá náðu þeir ekki að stoppa sókn eldri leikmanna Leiknis og vörn Leiknis varð loks nægilega góð til að skila sigri.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Stjarnan b hafði fram að þessu verið að skora tæp 97 stig að meðaltali í leik og verið að vinna sína leiki að meðaltali með rúmum 7 stigum. Leiknismenn náðu að takmarka gestina þannig að þeir skoruðu aðeins 84 stig og skoruðu á hinum enda vallarins 95 stig, sem er tæpum 23 stigum meira en heimamenn hafa skorað að meðaltali í leik hingað til. Góð vörn og ennþá betri sókn Leiknis var það sem vann leikinn.
 

Kjarninn

Stjarnan b, sem er skipuð ungum og efnilegum leikmönnum meistaraflokksins og unglingaflokksins í Garðabænum, gat alveg klárað leikinn á sínum fimm leikmönnum, en reynsla heimamanna fékk að skína seinasta korter leiksins. Allir leikmenn Leiknis voru eldri en elsti leikmaður Stjörnunnar b og með þrautseigju og þolinmæði hafði reynslan sigurinn að þessu sinni. Stjörnumenn er enn fyrir ofan Leikni í 2. deildinni, en það er útséð að Leiknismenn geta unnið lið ef að þeir spila sinn leik af skynsemi.
 

Stigaskor liða

Leiknir: Helgi Ingason 23 stig, Gunnar Gunnarsson 19 stig, Kristinn Loftur Einarsson 17 stig, Dzemal Raba 13 stig, Sigurður Jakobsson 9 stig, Einar Bjarni Einarsson 9 stig, Helgi Hrafn Ólafson 5 stig.

Stjarnan b: Bjarni Geir Gunnarsson 22 stig, Grímkell Orri Sigurþórsson 21 stig, Egill Agnar Októsson 14 stig, Viktor Marínó Alexandersson 12 stig, Óskar Þór Þorsteinsson 11 stig, Magnús Bjarki Guðmundsson 4 stig.
 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -