Leiknir og KV mættust í úrslitaleik 2.deildarinnar síðastliðinn laugardag sl. Leiknismenn byrjuðu leikinn betur en KV tóku svo við sér, skiptu í svæðisvörn og náðu 11 stigum í röð á síðustu mínútum fyrsta leikhlutans og leiddu 23-19 eftir hann. Leiknir fundu svör við svæðisvörninnií öðrum leikhluta, fyrst byrjuðu þristarnir að detta og eftir það þá opnaðist miðja varnarinnar og þegar Leiknir voru komnir í 42-31 var svæðisvörnin úr sögunni. Þá komst jafnvægi aftur á leikinn og liðin skiptust á körfum og baráttan var mikil. Það voru svo KV sem áttu síðustu körfu hálfleiksins, spjaldið ofan-í þristur í andlitið á Leiknisvörninni. Staðan í hálfleik 52-44.
KV byrjaði betur í seinni hálfleik og hægt og rólega voru þeir farnir að anda ofan í hálsmálið á Leikni og munurinn kominn niður í 57-56. Þá kom góður kafli hjá Leiknismönnum sem tóku 11-1 áhlaup og fóru með 74-62 mun inn í lokaleikhlutann. Allar líkur voru á því að þetta yrði hnífjafn lokaleikhluti, en það voru Leiknismenn sem tóku algjöra stjórn á leiknum og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri og eftir 18-2 byrjun á leikhlutanum var orðið ljóst í hvað stefndi. Síðustu mínúturnar voru svo formsatriði og endaði leikurinn 99-68. Leiknir eru því Íslandsmeistarar í 2.deild, en lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af því hversu jafn leikurinn var í raun alveg þar til í fjórða leikhluta.
Stigaskorið:
Leiknir: Kristinn Loftur (23), Gunnar Gunnarsson (19), Einar Bjarni (18), Dzemal Licina (14), Konráð Helgason (9), Einar Hansberg (8), Eiríkur Guðmundsson (2), Gylfi Geirsson (2), Chris Brown (2), Tryggvi Magnússon (2).
KV: Kjartan Kjartansson (30), Alex Green (14), Hjörtur Ragnarsson (6), Jens Guðmundsson (6), Grétar Guðmundsson (4), Águst Þorri (4), Magnús Sigurðsson (2), Reynar Bjarnason (2),
Til hamingju Leiknir