Þrír leikir fara fram í Domino’s deild kvenna í dag, miðvikudaginn 4. mars, og hefjast þeir allir klukkan 19:15.
Í Smáranum tekur Breiðablik á móti Keflavík. Blikar sitja sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar með 6 stig, en Keflavík situr í því þriðja með 28 stig, en eiga þó leik til góða á Skallagrím sem sitja í þriðja sæti.
Í Ólafssal að Ásvöllum taka Haukar á móti botnliði Grindavíkur. Haukar eru enn í baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en þurfa þó nauðsynlega á sigri að halda, líkt og Grindvíkingar, sem eru tveim stigum frá öruggu sæti í deildinni.
Að lokum er Vesturlandsslagur í Borgarnesi þegar Skallagrímur tekur á móti Snæfelli. Með sigri styrkja bikarmeistarar Skallagríms stöðu sína verulega í baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en Hólmarar sigla lygnan sjó með 14 stig, og eru hvorki í baráttu um fall né sæti í úrslitakeppni.
Líkt og áður segir hefjast allir ofangreindir leikir klukkan 19:15.